Gangan tók 43 daga en Eva lagði af stað þann 16. júní frá Hafnarfjarðarkirkju. Markmiðið var að klára gönguna á fimmtíu dögum og því ljóst að hún gerði gott betur og kláraði viku fyrr.
Sjá einnig: 16 ára gengur hringinn á fimmtíu dögum
Hún gekk að meðaltali 35 kílómetra á hverjum degi og sagði formið hafa komið sér á óvart. Hún viðurkennir að hún sé þreytt eftir gönguna en það skipti litlu máli í samanburði við ævintýrið sem gangan var.
Hún segir það hafa verið erfiðast að ganga ein oft á tíðum en spenntust var hún fyrir því að koma aftur heim til þess að sofa í rúminu sínu, borða heitan mat og fá sér ís.
Vonar að fyrirtæki sjái sér fært að styrkja
„Bróðir minn er langveikur og með hjartagalla og Barnaspítalinn hefur hjálpað okkur fjölskyldunni ótrúlega mikið og þetta er smá peningur til þakkar,“ segir Eva og bætir við að fjölskyldan sé afar þakklát spítalanum.Þegar Eva athugaði síðast höfðu safnast 1,4 milljónir en hún vonast til þess að fleiri, og þá sérstaklega fyrirtæki, sjái sér fært að styrkja hana á meðan reikningurinn er enn opinn. Hægt er að styrkja Evu til 29. ágúst, á afmælisdegi hennar, en þá sér hún fram á að afhenda peninginn.
Þeir sem vilja og hafa tök á að styrkja Evu og þar með Barnaspítala hringsins geta lagt inn á eftirfarandi reikning:
Bankareikningur: 0545-14-001153
Kennitala: 2908022290