Fótbolti

Rostov tapar ekki með Ragnar sem fyrirliða og Mikael fiskaði vítið sem tryggði Midtjylland sigur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikael fiskar vítið í dag.
Mikael fiskar vítið í dag. vísir/getty
Ragnar Sigurðsson stóð vaktina í vörn Rostov sem vann 3-2 sigur á Arsenal Tula á útivelli í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Ragnar spilaði allan leikinn í vörn Rostov sem er með sjö stig í fyrstu þremur leikjunum í Rússlandi en Ragnar tók við fyrirliðabandinu í sumar.

Björn Bergmann Sigurðarson kom inn og spilaði síðustu sex mínúturnar fyrir Rostov sem er í öðru sætinu, tveimur stigum minna en Zenit frá Pétursborg.

Midtjylland vann 1-0 sigur á AGF í Íslendingaslag í danska boltanum. Markið kom á 88. mínútu er Evander skoraði úr vítaspyrnu sem íslenski U21-árs landsliðsmaðurinn Mikael Anderson fiskaði.

Mikael kom inn sem varamaður skömmu áður en þetta er í annað skiptið í fyrstu þremur leikjunum sem hann á stóran þátt í sigri Midtjylland. Jón Dagur Þorsteinsson spilaði fyrstu 73 mínúturnar fyrir AGF.

Midtjylland er með níu stig eftir fyrstu þrjá leikina en AGF er einungis með eitt stig af níu mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×