Innlent

Kýldi lögreglumann í andlitið við Egilshöll

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Alls voru 74 mál skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00-05:00 í nótt og alls fimm aðilar vistaðir í fangageymslu eftir nóttina.
Alls voru 74 mál skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00-05:00 í nótt og alls fimm aðilar vistaðir í fangageymslu eftir nóttina. Vísir/Egill
Í nótt var tvisvar óskað eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Egilshöll í Grafarvogi. Alls voru 74 mál skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00-05:00 í nótt og alls fimm aðilar vistaðir í fangageymslu eftir nóttina.

Fyrri tilkynningin barst laust fyrir klukkan hálf eitt og var óskað eftir aðstoð vegna líkamsárásar við tónleika og kvikmyndahöllina. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að maður hafi verið kýldur og tennur hans brotnar. Árásaraðili var þó farinn af vettvangi þegar lögregla mætti.

Klukkan 01:20 voru tveir ölvaðir menn handteknir við Egilshöll. Annar þeirra kýldi lögreglumann í andlitið og var kærður fyrir ofbeldi gegn lögreglumanni. Mennirnir voru báðir vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Klukkan rúmlega átta í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns í annarlegu ástandi í Hafnarfirði. Hann er grunaður um þjófnað úr verslun í Hafnarfirði, líkamsárás, ofbeldi gegn opinberum starfsmanni og brot á áfengislögum. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Laust eftir klukkan eitt í nótt var lögreglu tilkynnt um konu sem réðist á dyraverði við veitingahús í miðbæ Reykjavíkur. Konan var handtekin og færð á lögreglustöð. Hún var látin laus að skýrslutöku lokinni. Systir konunnar var einnig á vettvangi og tálmaði störf lögreglu því hún vildi hjálpa systur sinni. Hún fór ekki að fyrirmælum lögreglu á vettvangi og var handtekinn og færð á lögreglustöð en síðar ekið heim. Konurnar voru báðar ölvaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×