Innlent

Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur funda um þinglok

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, á nú í samningaviðræðum við þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins um þinglok.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, á nú í samningaviðræðum við þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins um þinglok. vísir/vilhelm
Þeir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hafa í morgun fundað um þinglok. Engin niðurstaða liggur þó fyrir enn sem komið er.

„En það er ekki slitnað neitt svoleiðis, þetta tekur bara alltaf sinn tíma,“ segir Bergþór í samtali við Vísi sem kveðst hóflega bjartsýnn á að menn geti náð saman um þau atriði sem út af standa.

Aðspurður hvort samkomulag gæti náðst í dag kveðst Bergþór ekki þora að segja til um það.

„Menn eru auðvitað í þessu af heilindum og eru að reyna ná saman þannig ætli það sé ekki best að orða það þannig að óskastaðan sé að þetta náist saman sem fyrst. En það getur brugðið til beggja vona,“ segir Bergþór.

Fyrir helgi var greint frá því að á meðal þess sem stæði í Sjálfstæðismönnum varðandi samkomulagið væri fimm manna sérfræðingahópur sem skipa á í tengslum við umræðu um þriðja orkupakkann á síðsumarþingi, en eins og kunnugt er hefur Miðflokkurinn barist hart gegn orkupakkanum.

Spurður út í það hvort verið sé að ræða nánar um sérfræðingahópinn í samningaviðræðunum nú vill Bergþór ekki tjá sig um það.

Þingfundur hefst klukkan 13:30 í dag og eru alls tuttugu mál á dagskrá fundarins.


Tengdar fréttir

Segja Miðflokkinn ekki hafa af sér sumarfríið

Enn er engin niðurstaða komin í viðræðum Sjálfstæðisflokksins við Miðflokkinn um þinglokasamning. Þingmenn eru samt bjartsýnir á horfur áætlaðra sumarfría þótt ekki virðist mikill kraftur í samningaviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×