Víkingur frá Ólafsvík vann góðan sigur á toppliði Fjölnis í 18.umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Þrátt fyrir tapið er Fjölnir enn efstir í deildinni þegar fjórar umferðir eru eftir.
Fyrir leikinn voru Fjölnismenn með 35 stig og þriggja stiga forskot á Þór á toppi Inkasso-deildarinnar. Ólsarar voru hins vegar í 7.sætinu með 24 stig.
Heimamenn kláruðu í raun leikinn í fyrri hálfleik. Þeir leiddu þá 3-0 eftir mörk frá Harley Willard úr vítaspyrnu, Ibrahim Barrie og Guðmundi Magnússyni en hann kom til liðsins frá Pepsi Max-deildar liði ÍBV í félagaskiptaglugganum í júlí.
Albert Brynjar Ingason minnkaði muninn fyrir Fjölni úr víti á 68.mínútu en Guðmundur tryggði sigurinn úr þriðja vítamarkinu fimm mínútum síðar.
Þrátt fyrir tapið eru Fjölnismenn enn efstir í deildinni en þetta er fjórði leikur þeirra í röð án sigurs. Þórsarar geta jafnað þá að stigum með sigri á Leikni á morgun og Grótta getur minnkað mun Fjölnis á toppnum í eitt stig sigri þeir Fram í leik sem hófst nú klukkan 19:15.
