Þegar við veltum því upp hvað gæti mögulega gerst í því mikla en hægfara fjallhrapi, sem vísindamenn hafa nýlega uppgötvað í vestanverðum Mýrdalsjökli, er fróðlegt að rifja upp hamfarir sem urðu við Steinsholtsjökul, einn skriðjökla Eyjafjallajökuls, þann 15. janúar árið 1967.

„Þá gerðist þetta á svipstundu og varð úr flóð og gríðarlegur efnisflutningur, - stórgrýti sem þeyttist þarna fram á grundirnar fyrir framan fjallið. Fólk þekkir þetta sem keyrir í Þórsmörk, ef það keyrir á milli þessara steina,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur um Steinsholtshlaupið.
En gætum við séð það gerast við Tungnakvíslarjökul að fjallshlíðin þar félli niður með sama hætti?

Þessu hafa fylgt jarðskjálftar. Við vitum ekki hvað fylgir hverju. Það virðist eins og skjálftavirknin þarna í gegnum árin, að hún sé frekar afleiðing af því sama, eins og skriðan. Það er að segja, ef þetta er gúll að rísa þarna undir þá veldur hann skjálftum og líka skriðu,“ segir Páll.
Sjá einnig hér: Rísandi leynigúll í Kötlu gæti skýrt fjallhrap í Mýrdalsjökli.

Á hinn bóginn gæti kvikugúll sprungið í miklu sprengigosi, eins og gerðist árið 1980 í Mount St. Helens-eldfjallinu í Washington-ríki í Bandaríkjunum, og einnig í sprengigosinu mikla í Öskju árið 1875 og í Víti við Kröflu árið 1724 við upphaf Mývatnselda, að því er fram kemur í greininni.
Vísindamenn segja þó ekkert benda til að stóratburðir séu yfirvofandi á þessari stundu.
„En þetta samhengi er sem sagt ennþá ekki búið að fullskýra og þetta verður rannsóknarverkefni fólks núna á næstu mánuðum og árum,“ segir Páll Einarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: