Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sótti fundinn. Þrátt fyrir að reiðialda sé risin í alþjóðasamfélaginu með tilheyrandi viðskiptaþvingunum óttast hún að þegar uppi er staðið muni Tyrkir fá sínu framgengt líkt og Rússar á Krímskaga.
Fengu á sig harða gagnrýni
Framganga Tyrkja í Norðurhluta Sýrlands var fyrirferðarmikið umfjöllunarefni á ársfundi hernaðarbandalagsins og ljóst var að ákvarðanir bæði forseta Bandaríkjanna og Tyrklands hvíldu mjög þungt á fólki.„Fulltrúar velflestra landa voru mjög afdráttarlausir. Hvort sem við tölum um Hollendinga Breta, Belga, Norðmenn, Frakka, Þjóðverja. Þeir voru mjög afdráttarlausir þar sem verið var að lýsa yfir fordæmingu á þessu atferli Tyrkja. Tyrkir, sjálfir, fjölmenntu á fundinn eins og þeir gera iðulega og eðlilega héldu uppi sínum vörnum en þeir fengu á sig verulega gagnrýni.“
Þorgerður Katrín segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki ótvírætt fordæmt hernaðaraðgerðir Tyrkja.
„Ég hef lýst því yfir að ég hefði kosið að sjá þau ganga lengra. Mér finnst þau ekki hafa ótvírætt fordæmt þetta. Hins vegar greinir maður líka að það er ekki algjör samhljómur hjá stjórnarflokkunum,“ segir Þorgerður. Vinstri græn vilji ganga mun lengra en hinir stjórnarflokkarnir.
![](https://www.visir.is/i/A69A4C10665EF39C03ACC0CB899A28597B1CBA7B4A27EF0D19219A16AA5D9A55_713x0.jpg)
Vinur er sá er til vamms segir
„Við verðum líka að horfa til þess að Bandaríkjamenn eru búnir að vera okkar mikilvægasta bandalagsþjóð á sviði öryggis- og varnarmála í gegnum tíðina en það er líka þannig að vinur er sá er til vamms segir.“Stjórnvöld og Íslendingar í heild, megi ekki gefa neina afslætti af grundvallarhugsjónum og mikilvægt er að tala hispurslaust.
„Íslendingar verðum að hafa það hugfast að þrátt fyrir að vera lítil þjóð þá skiptir hver rödd sem talar fyrir mannréttindum og friði máli. […] Það þarf að tala hreint út og það þarf að hafa hátt. Við eigum að vera ófeimin að tala yfir þeim gildum sem íslenskt samfélag fram til þessa hefur viljað standa vörð um.“
Hvernig metur þú stöðuna?
„Staðan er mjög alvarleg. Þetta er svolítið snúið fyrir NATO-þjóðirnar, Evrópuþjóðirnar, ásamt Bandaríkjunum að hreyfa sig í þessu að því leytinu til að ef við horfum til Úkraínu, þá fordæmdum við þá [Rússa vegna innlimunar Krímskaga], við vorum reið, við vorum með alls konar yfirlýsingar en eftir stendur að Rússar eru með Krímskagann. Það hefur ekkert gerst. Ég er svolítið hrædd um að það sama gerist með Tyrki. Þeir fá yfir sig reiðiöldu, hugsanlega einhverjar viðskiptaþvinganir en þegar upp er staðið hafa þeir fengið sitt fram. Og það er það sem er sorglegt í þessu.“