Arion banki hyggst hætta fjárstuðningi við Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn, samkvæmt heimildum Markaðarins. Bankinn hefur stutt við verkefnið frá árinu 2012 í samstarfi við Icelandic Startups sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða og aðstoðar frumkvöðla við að koma sprotafyrirtækjum á koppinn.
Startup Reykjavík er tíu vikna viðskiptahraðall og þátttakendur fá 2,4 milljónir króna frá Arion banka í skiptum fyrir sex prósenta hlut í sprotafyrirtækinu. Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður frumkvöðlamála Arion banka, mun í kjölfarið láta af störfum.
Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs, sagði í samtali við Markaðinn að málið væri í skoðun innan bankans.
Frá árinu 2012 til ársbyrjunar 2019 nam heildarfjárfesting Arion banka í Startup Reykjavík 176 milljónum króna. Í sumar höfðu 78 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn.
Eignir Startup Reykjavík Invest, sem samanstóðu af 48 sprotum, námu 313 milljónum króna við árslok 2018. Bókfært virði byggir á viðskiptum annarra með hlutafé fyrirtækjanna. Að öðrum kosti eru fyrirtækin metin út frá líkum á árangri.
Mest munar um rúmlega fjögurra prósenta hlut í Authenteq, sem skapar rafræn skilríki, sem metinn er á 110 milljónir króna. Þá er tæplega fjögurra prósenta hlutur í Activity Stream, sem framleiðir næstu kynslóðar viðskiptahugbúnað, metinn á 41 milljón króna og rúmlega þriggja prósenta hlutur í Florealis, sem framleiðir jurtalyf og lækningavörur, metinn á 32 milljónir króna.
Á meðal annarra fyrirtækja í eignasafninu eru Klappir Grænar lausnir, sem skráð er á First North-hliðarmarkað Kauphallarinnar, Travelade og Wasabi Iceland.
