Innlent

Eitt versta veðrið fram­undan í vikunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Gular viðvaranir verða víða í gildi klukkan 15 á þriðjudag.
Gular viðvaranir verða víða í gildi klukkan 15 á þriðjudag. Skjáskot

Búast má við stormi og ofsafengnu veðri víða á þriðjudag og miðvikudag. Gul veðurviðvörun verður í gildi þessa daga á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra.

Á þriðjudag er útlit fyrir norðanstorm eða norðanrok á vestanverðu landinu með snjókomu og skafrenningi, einkum norðvestantil. Er því spáð að vindur geti sumsstaðar náð 23 til 32 metrum á sekúndu. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og engu ferðaveðri þar sem viðvaranir verða í gildi.

Veðurstofan varar jafnframt við því að þar megi búast við tjónum eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.

Á miðvikudag má reikna með norðanhvassviðri eða norðanstormi með snjókomu eða éljagangi.

Síðdegis á þriðjudag og fram á miðvikudag má búast við stormi eða roki á höfuðborgarsvæðinu sem nái 20 til 28 metrum á sekúndu. Þá er varað við hugsanlegum samgöngutruflunum og hættu á foktjóni.

Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×