Breska ríkisútvarpið segir frá því að enn hafi ekki verið gefin út dagsetning hvenær kappræðurnar fari fram. Þar segir ennfremur að forsetinn Pórósjenkó hafi einnig samþykkt að gangast undir fíkniefna- og áfengispróf á morgun, föstudag.
Zelensky fékk rúm 30 prósent atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna og Pórósjenkó um sextán prósent. Þar sem enginn hlaut hreinan meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni er kosið milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni, það er Zelensky og Pórósjenkó.

Zelensky hefur litla pólitíska reynslu, en athygli hefur vakið að hann hefur farið með hlutverk Úkraínuforseta í vinsælli gamanþáttaröð þar í landi síðustu ár. Er söguþráðurinn á þá leið að venjulegur borgari sigrar forsetakosningar með því að heita því að berjast gegn spillingu í landinu. Má því segja að lífið hermi eftir listinni í þessu tilviki þar sem barátta gegn spillingu hefur verið helsta kosningaloforð Zelensky.