Körfubolti

Ótrúlegir yfirburðir Stjörnumanna í fjórða leikhluta á móti ÍR í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður gaman að fylgjast með einvígi þeirra Hlyns Bæringssonar og Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar.
Það verður gaman að fylgjast með einvígi þeirra Hlyns Bæringssonar og Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar. Vísir/Bára
Deildarmeistarar Stjörnunnar og ÍR hefja í kvöld undanúrslitaeinvígi sitt í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta og Breiðhyltingar þurfa þar nauðsynlega að breyta að minnsta kosti einu frá því í þremur innbyrðis leikjum liðanna í vetur.

Leikur Stjörnunnar og ÍR hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending Domino´s Körfuboltakvölds hefst klukkan 18.30 og mun hún vera í gangi í gegnum leikinn og gera síðan leikinn upp við lok hans.

Stjarnan og ÍR hafa mæst þrisvar sinnum áður á tímabilinu, tvisvar í deildinni og einu sinni í bikarnum. Stjarnan hefur unnið alla þrjá leikina með 14 stigum eða meira. Stærsti sigurinn var 23 stiga sigur í Seljaskólanum í janúarbyrjun.

ÍR-ingum hefur reyndar gengið vel í fyrri hálfleik í leikjunum þremur og hafa skorað sjö stigum meira í fyrri hálfleik (146) en Stjarnan (139) í þessum leikjum liðanna.

Seinni hálfleikurinn og þá sérstaklega fjórði leikhlutinn hefur aftur á móti farið mjög illa fyrir ÍR-liðið.Stjörnumenn hafa nefnilega haft ótrúlega yfirburði í lokaleikhlutanum á móti ÍR í vetur.

Stjarnan hefur unnið fjórða leikhlutann samtals með 43 stigum í þessum þremur leikjum þar sem ÍR-ingar hafa aðeins skorað samtals 36 stig.

Stjörnuliðið hefur unnið fjórðu leikhlutana 25-8 (+17), 27-13 (+14) og 27-15 (+12). Það eina jákvæða er að það hefur gengið aðeins betur hjá ÍR-liðinu í hverjum leik.

Það er þó ekki eins og bekkurinn sé að gera þarna útslagið því ÍR hefur fengið 13 stigum meira frá bekknum sínum (63 stig frá bekk) í þessum þremur leikjum en Stjörnumenn (50 stig frá bekk).

Úrslit eftir leikhlutum í leikjum Stjörnunnar og ÍR í vetur:

1. leikhluti: ÍR +1

Stjarnan 72 - ÍR 73

2. leikhluti: ÍR +6

Stjarnan 67 - ÍR 73

3. leikhluti: Stjarnan +18

Stjarnan 69 - ÍR 51

4. leikhluti: Stjarnan +43

Stjarnan 79 - ÍR 36




Fleiri fréttir

Sjá meira


×