Hún birti í gærkvöldi bréf sem henni hefur borist þar sem tilkynnt er um vinnslu máls samkvæmt bráðabirgðaverkferli vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.
Vigdís gefur ekki mikið fyrir þetta á Facebooksíðu sinni, en Vísi tókst ekki að ná tali af henni nú í morgun vegna málsins: „Verði þessu fólki að góðu – ég er kjörinn fulltrúi Reykvíkinga og vinn í umboði þeirra og er stolt af því,“ segir Vigdís á Facebooksíðu sinni og telur þráhyggju ráða för í málinu.
Meint einelti Vigdísar rannsakað í þaula
Í bréfinu kemur fram að undirritað hafi verið erindisbréf og samkvæmt því verði skipað eineltis- og áreitniteymi Ráðhúss og miðlægrar stjórnsýslu. Teiminu ber að starfa í samræmi við mannauðsstefnu borgarinnar og verkferlum þar gegn áreiti og ofbeldi með hliðsjón af þeim skyldum sem á Reykjavíkurborg hvíla um aðbúnað, hollustuhætti, öryggi á vinnustöðum og aðgerðir gegn einelti.
Vigdísi er greint frá því að samkvæmt bráðabirgðaverkferli mun sérhæfðum og óháðum aðilum falið að kanna og taka afstöðu til ásakana Helgu Bjargar. Og óskað eftir því hvort Vigdís hafi eitthvað við það að athuga að einhver af eftirtöldum aðilum komi að þeirri rannsókn: Officioum ráðgjöf ehf., Betri líðan – sálfræðiþjónusta ehf., Líf og sál sálfræðistofa ehf eða ATTENTUS, mannauður og ráðgjöf ehf.
Þá liggur fyrir að siðfræðingur verður fenginn til að kanna og taka afstöðu til málsins í ljósi siðareglna borgarinnar. Vigdísi gefst kostur á að gera athugasemdir við það hvernig siðfræðiteymið verður skipað þegar það liggur fyrir.
Áminning Helgu Bjargar felld úr gildi
Þannig virðist allt loga í illdeilum í Ráðhúsinu. Helga Björg sjálf var í sviðsljósinu vegna slíkra mála á síðasta ári en þá felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi áminningu hennar sem snéri að fjármálastjóra Ráðhússins. Og þurfti Reykjavíkurborg að greiða honum 250 þúsund krónur í miskabætur.Sagði í niðurstöðu dómsins að framkoma Helgu Bjargar í garð starfsmannsins hefði verið „í það minnsta óvirðing, ef ekki lítilsvirðing við samstarfsmann“ sem væri auk þess kynslóð eldri en hún og ætti, „þó ekki væri nema vegna starfsreynslu sinnar, tilkall til örlítillar virðingar.“
Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn „virðist ætlast til af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“
Vigdís með krók á móti bragði
Vigdís tilkynnti nú í morgun að hún ætli að leggja fram bókun vegna málsins í upphafi fundar sem var að hefjast. Hún segir að rétturinn til að virkja „rannsóknarréttinn“ hljóti að virka í báðar áttir. En, bókunin er svohljóðandi:„Fulltrúi Miðflokksins í borgarráði fagnar því að nú sé formlega búið að virkja hinn svokallaða bráðabirgðaverkferil/rannsóknarrétt ráðhússins vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.
Það er staðfest tæpum sólarhring eftir að nýjar siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar á hitafund borgarstjórnar. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir því að bæði siðareglur og skráning fjárhagslegra hagsmuna nái bæði yfir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn borgarinnar og séu samþykktar samhliða.
Því hefur ávallt verið hafnað af fyrrverandi forseta borgarstjórnar, Dóru Björt Guðjónsdóttur og borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni. Nú hefur komið á daginn hvers vegna þessum réttmætu óskum minnihlutans var hafnað.
Með bréfi dags. 12. júní, sem undirritaðri barst í gær með ábyrgðarpósti undirrituðu af eineltis- og áreitnisteymi Ráðhúss/miðlægrar stjórnsýslu hefur einstakt fordæmi verið sett. Undirrituð lítur því svo á að nú hafi rétturinn til kvartanna verið virkjaður í báðar áttir og sé því orðinn gagnkvæmur á þann hátt að kjörnir fulltrúar hafi því líka feril til að kvarta undan framkomu og háttsemi embættismanna í sinn garð.“
Uppfært klukkan 9:05 með viðbrögðum Vigdísar.