Erlent

Woody Allen krefur Amazon um átta milljarða vegna A Rainy Day in New York

Atli Ísleifsson skrifar
Woody Allen hefur ítrekað hafnað ásökunum um að hafa brotið gegn dóttur sinni.
Woody Allen hefur ítrekað hafnað ásökunum um að hafa brotið gegn dóttur sinni. Getty

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Woody Allen hefur stefnt Amazon Studios og krafið kvikmyndaverið um háar fjárhæðir vegna ákvörðunar þess að hætta við dreifingu á nýjustu kvikmynd leikstjórans.

Hinn 83 ára Allen sakar Amazon Studios um samningsbrot og fer fram á greiðslu 68 milljóna dala í skaðabætur, um 8,2 milljarða króna. Segir hann Amazon Studios hafa brotið gegn gerðum samningi án nokkurrar ástæðu.

Í frétt BBC  segir að Amazon hafi áður dreift tveimur af kvikmyndum Allen og sjónvarpsþáttum leikstjórans, Crisis in Six Scenes. Kvikmyndaverið hafi hins vegar hætt við dreifingu á nýjustu mynd Woody Allen, A Rainy Day in New York.

Allen segir Amazon hafa brotið gegn samningnum í júní síðastliðinn vegna ásakana um að leikstjórinn hafi brotið kynferðislega gegn dóttur sinni, Dylan Farrow, árið 1992.

Amazon ekki í neinum rétti

Í gögnum lögmanna Allen segir að Amazon hafi verið vel kunnugt um 25 ára gamlar „tilhæfulausar“ ásakanir þegar gengið var til samninga um kvikmyndina A Rainy Day in New York. Amazon hafi ekki verið í neinum rétti að rifta samningnum.

Tökur á myndinni A Rainy Day in New York fóru fram árið 2017, en Jude Law, Rebecca Hall, Selena Gomez og Timothée Chalamet voru í hópi leikara myndarinnar. Chalamet greindi frá því í janúar á síðasta ári að hann myndi gefa öll laun sín vegna hlutverks í myndinni til Time‘s Up hreyfingarinnar sem berst gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni og annarra góðgerðarmála.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×