Fyrsta mótið hjá Guðlaugu Eddu á tímabilinu er nefnilega Cape Town World Cup mót í Höfðaborg í Suður-Afríku. Mótið fer fram á sunnudaginn. Guðlaug Edda vinnur að því að verða fyrsta íslenska þríþrautarkonan til að keppa á Ólympíuleikum.
Guðlaug Edda hefur verið dugleg að leyfa áhugasömum að fylgjast með sér á samfélagsmiðlum en ákvað að gera smá breytingu á því.
„Góðan daginn gott fólk. Axel hérna, en ég mun gefa fréttir af Guðlaugu í Cape Town World Cup keppninni þar sem hún er í samfélagsmiðladetoxi þar til eftir keppni til þess að undirbúa sig. Ef þið hafið sent henni skilaboð og ekki fengið svar þá er það vegna þessa,“ skrifar Axel inn á fésbókarsíðu Guðlaugar Eddu.
Það tók þau sólarhring að komast til Suður-Afríku og Edda er byrjuð að venjast aðstæðum. „Vatnið er mjög kalt (ca 13 gráður), en samt sem áður hár lofthiti (ca 30 gráður). Bæði hjóla- og hlaupabrautirnar eru frekar flatar. Það eru nokkrir tæknilegir hlutar á hjólabrautinni og því mikilvægt að staðsetja sig vel í hópnum. Við fundum góða sundlaug í gær til þess að æfa í og erum með ferðatrainer til þess að hjóla á inni þar sem það er ekki mjög öruggt að fara ein út að hjóla hérna,“ skrifar Axel.
„Síðustu mánuður hafa verið krefjandi og þroskandi fyrir okkur bæði, enda var ekkert djók að núllstilla sig aftur eftir heilahristing og ofþjálfun í fyrra. Þess vegna erum við enn spenntari fyrir þessari keppni, og ég finn að Guðlaugu langar mikið að keppa aftur,“ skrifar Axel eins og sjá má hér fyrir neðan.