Viðskipti innlent

Horfa í ríkara mæli fram hjá gögnum

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Diðrik Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri MediaCom og Þórmundur Bergsson, framkvæmdastjóri MediaCom.
Diðrik Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri MediaCom og Þórmundur Bergsson, framkvæmdastjóri MediaCom. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
„Við höfum áhyggjur af því að fyrirtæki hætti að byggja ákvarðanir í markaðsmálum á gögnum þegar þau slíta samstarfi við auglýsingastofur og birtingahús. Það getur leitt til þess að fyrirtækin tapa milljónum því markaðsefnið nær ekki jafn greiðlega til markhópsins,“ segir Diðrik Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri, sem stýrir stafrænum hluta MediaCom á Íslandi.

Þórmundur Bergsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að undanfarin ár hafi það færst í aukana að fyrirtæki taki yfir markaðsstarfið. Fyrir skemmstu hafi til að mynda verið upplýst um að Íslandsbanki hafi hætt viðskiptum við Brandenburg í því skyni að annast málin upp á eigin spýtur.

„Fyrirtæki vinna alla jafna með mikið af gögnum sem skipta máli til að ná árangri, það má nefna sölutölur og neyslugögn í þeim efnum en af einhverjum ástæðum hafa þau í vaxandi mæli verið að horfa fram hjá gögnum um fjölmiðla. En þau skipta einmitt sköpum til að koma skilaboðum á framfæri á réttan markhóp með hagkvæmum hætti. Þetta leiðir til þess að starfsmenn fyrirtækja missa yfirsýn yfir hvernig best er að ná til markhópsins,“ segir hann.

Diðrik Örn, sem er sérfræðingur í stafrænum miðlum, segir að sér þyki það skjóta skökku við að hætta að horfa til gagna um fjölmiðla þegar stór hluti af markaðsfé fyrirtækja er alla jafna varið í hefðbundna miðla. „Fyrirtæki horfa í ríkara mæli einkum til stafrænu gagnanna en ég held að það helgist af því að þær upplýsingar eru ókeypis. Það er hættuleg þróun.“

Hann segir að markaðsfólk verði að byggja ákvarðanir á gögnum en ekki á eigin tilfinningu. „Án gagna ertu bara einn af hópnum með sérlundaða skoðun.“

Þórmundur segir að þeir hafi áhyggjur af þróuninni. „Undanfarin ár hefur verið rekinn áróður gegn hefðbundnum miðlum í markaðsstarfi, eins og dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi, og talað fyrir stafrænu miðlunum. Margir hafa í flimtingum að flestir séu hættir að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp. Hið rétta er að það hefur aldrei verið horft eins mikið á sjónvarp, og staða útvarps er sterk, það hlusta um 65 prósent fólks á útvarp daglega. Um 40 prósent fólks flettir Fréttablaðinu, það er um 100 þúsund manns. Þetta eru því mikilvægar boðleiðir til að ná til neytenda.“

Netrisar í hefðbundna miðla

Diðrik Örn segir að þróunin erlendis sé á þá vegu að öflug netfyrirtæki eins og Amazon, eBay, Facebook og Netflix séu farin að auglýsa í hefðbundnum miðlum. „Fáir búa yfir jafn mikilli þekkingu á gögnum og tækni og þau en engu að síður telja þau að mikilvægt sé að nýta líka hefðbundna miðla í markaðsstarfi. Sú þróun hófst fyrir um það bil ári,“ segir hann.

Þeir segja að neytendur geri ekki greinarmun á stafrænni markaðssetningu og hefðbundinni. Þeir skoði vörur í símanum og kaupi í verslunum eða horfa á auglýsingaskilti frá banka sem hvetur fólk til að eiga bankaviðskipti á netinu.

Þórmundur segir að í ljósi þess að fjölmiðlaneysla fólks nái yfir breitt svið þurfi auglýsendur að nýta fjölda miðla, allt frá hefðbundnum yfir í þá sem eru að skapa sér sess um þessar mundir.

Að hans sögn eru auglýsingasölumenn með árangurstengdar tekjur og því getur verið óæskilegt að treysta um of á þá. Þeir séu ekki óháðir ráðgjafar heldur hafi hvata til að mæla einkum með eigin miðlum. Að sama skapi þurfi einnig að vakta birtingar í sjónvarpi og útvarpi til að tryggja að allt hafi gengið upp. Það sé ekki hægt án réttra gagna og hugbúnaðar. „Það getur verið um verulegar fjárhæðir að tefla fyrir fyrirtæki sem auglýsa árið um kring til dæmis í sjónvarpi.“


Tengdar fréttir

Vilja minnka markaðshluta Ríkisútvarps

Rúm 59 prósent þeirra sem taka afstöðu í nýrri könnun vilja draga úr umsvifum eða að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna vilja helst óbreytt ástand.

DV tapaði 240 milljónum

Útgefandi DV og vefmiðla þess, félagið Frjáls fjölmiðlun ehf., tapaði næstum 240 milljónum króna á síðasta ári






Fleiri fréttir

Sjá meira


×