Erlent

Átök milli öryggissveita og mótmælenda í Súdan

Andri Eysteinsson skrifar
Ríkisstjórn Súdan hefur einnig verið mótmælt víða í Evrópu. Hér er mótmælt í Genf í Sviss.
Ríkisstjórn Súdan hefur einnig verið mótmælt víða í Evrópu. Hér er mótmælt í Genf í Sviss. EPA/Martial Trezzini
Þúsundir manna hafa mótmælt stjórn forseta Súdan, Omar al-Bashir, í Kartúm, höfuðborg Súdan í dag. Al-Bashir hefur verið við stjórnvölinn í landinu í 30 ár. Til átaka kom milli mótmælanda og öryggissveita. Guardian greinir frá.

Mótmælendur svöruðu táragasi öryggissveitanna með grjótkasti fyrir utan híbýli forsetans en óánægju hefur gætt um störf hans í nokkurn tíma. Mótmælin eru þó ein þau stærstu gegn honum.

Súdönskum fánum var veifað og slagorð á borð við „Frelsi, friður, réttlæti“ voru kölluð af skaranum. Ekki er talið að nokkur hafi látist í mótmælunum og átökunum sem þeim fylgdu.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að ánægja ríkti með framgöngu öryggissveitanna sem höfðu passað sig vel að úthella ekki súdönsku blóði, því verðmætasta í landinu.

Forsetinn, al-Bashir, tók við embætti árið 1989 og er nú orðinn 75 ára gamall. Al-Bashir hefur sagst ekki ætla að stíga til hliðar og hefur sagt andstæðingum sínum að sigra sig í kjörklefanum frekar.

Mótmæli hófust í Súdan 19. Desember síðastliðinn vegna hækkandi verða og bágs efnahagsástands í landinu.

Þrátt fyrir að enginn hafi látist í mótmælunum í dag hafa 60 manns látist af völdum öryggissveita í mótmælum samkvæmt tölum frá mannréttindasamtökum sem fylgst hafa með framvindu mála. Yfirvöld í Súdan segja að tala látinna sé mun lægri eða 31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×