Íslenski boltinn

„Ekki viss um að ég myndi kvitta upp á það að FH sé með besta mannskapinn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli Viðar Björnsson, einn sérfræðingur Pepsi Max-markanna, segir að bikarkeppnin sé besti möguleiki FH á að vinna bikar í sumar.

FH-liðið hefur ekki farið vel af stað í Pepsi Max-deild karla og er í sjöunda sæti deildarinnar. Liðið er þó enn í bikarnum.

Annað kvöld mætir liðið Grindavík í átta liða úrslitum bikarsins og segir Atli Viðar að það sé lífæð FH í sumar, sjálfur Mjólkurbikarinn.

„Þetta er lífæð fyrir þá að taka titil. Ég held að menn horfi til þess í Kaplakrika að það er stutt leið til þess að verða bikarmeistari,“ sagði Atli Viðar í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakka kvöldsins.

„Íslandsmeistaratitillinn er orðinn fjarlægur draumur þetta árið svo ég held að þeir líti á þetta sem stóra sénsinn að vera í baráttu um bikar þetta árið.“

„Þeir hafa verið að ströggla í síðustu leikjum. Það hefur vantað upp á leikgleði og stemningu og ég held að ef menn grafa aðeins eftir því aftur þá er auðvelt að koma sér á lappirnar og sækja úrslit.“

Steven Lennon, framherji FH, sagði í viðtali eftir leik fyrr í sumar að FH væri með besta mannskap Pepsi Max-deildarinnar en Atli, fyrrum samherji Lennon, er ekki sammála þeirri fullyrðingu.

„Taflan sýnir að svo er ekki. Ég er ekki viss um að ég myndi kvitta upp á það að FH sé með besta mannskapinn. Þeir eru með gott lið og góðan hóp og eiga sannarlega að vera búnir að skila fleiri stigum í deildinni.“

„Nú er nýtt mót og pínulítið eitthvað sem þeir hafa verið að bíða eftir. Ég held að það verði mikill þungi og pressa á þeim í þessum leik á morgun.“

Innslagið í heild sinni má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×