Tilkynnt var um líkamsárás og eignaspjöll í Hlíðunum laust fyrir klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Maður var handtekinn grunaður um árásina og vistaður í fangaklefa. Ekki er vitað um meiðsl árásarþola.
Þetta kom fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hún hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögregla stöðvaði ökumann í Laugardalnum laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna, innbrot, þjófnað og nytjastuld bifreiðar. Maðurinn hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Um hálf tólf leytið í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið í Miðbænum. Ekki er vitað hver var að verki en viðkomandi braut rúðu bifreiðarinnar og stal úlpu.
Laust fyrir klukkan fjögur í nótt var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp í Garðabæ en ökumaður hafði ekið á stólpa. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og var hann vistaður í fangaklefa.
Klukkan 01:18 stöðvaði lögregla bifreið í Breiðholti. Henni reyndist hafa verið stolið og var auk þess með röng skráningarnúmer. Ökumaður er grunaður um vörslu fíkniefna, nytjastuld bifreiðar og þjófnað á skráningarnúmerum.
Líkamsárás og eignaspjöll í Hlíðunum
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
