Þetta segir Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sem segir að þrátt fyrir að honum hafi verið kunnugt um að brestir væru í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi stjórnarslitin komið eins og þruma af heiðum himni.
Í yfirlýsingu sem Conte sendi frá sér í gærkvöldi var hann afar gagnrýninn á ákvörðun Salvinis sem hann telur að hafi verið tekin að óathuguðu máli. Í síðustu kosningum hafi ítalska þjóðin látið í ljós áhuga á breytingum og hún hafi kosið Norðurbandalagið og Fimmstjörnuhreyfinguna í góðri trú.
Salvini, sem gegnir bæði embætti varaforsætisráðherra og innanríkisráðherra, greindi ítölsku þjóðinni frá því í gær að hann hygðist segja sig frá Fimmstjörnuhreyfingunni eftir að þingmenn hennar greiddu atkvæði gegn háhraðalínu á milli Lyon í Frakklandi og Tórínó á Norður-Ítalíu.

Þá telur hreyfingin framkvæmdina vera bruðl með almannafé og hefur efasemdir gagnvart Evrópusambandinu sem hyggst greiða 40% kostnaðarins.
Salvini sagði að mælirinn væri fullur. Nóg væri komið af „nei-um“ frá samstarfsflokki sínum. Ríkisstjórnarsamstarfið væri orðið svo slæmt að hann sæi ekki fram á að hægt væri að laga það. Ríkisstjórnin væri með öllu óstarfhæf. Áður en flokkarnir tveir skrifuðu undir stjórnarsáttmála fyrir um ári síðan ríkti margra mánaða stjórnmálakreppa í landinu.
Norðurbandalagið er yst á hægri væng hins pólitíska litrófs og rekur harða stefnu gegn innflytjendum. Fimmstjörnuhreyfingin hefur fleiri þingsæti en Norðurbandalagið hefur aftur á móti mælst með meira fylgi undanfarna mánuði.
Luigi di Maio, formaður Fimmstjörnuhreyfingarinnar, segir að flokkurinn sé tilbúinn í kosningar óttist ekki niðurstöðuna. Það muni koma í bakið á Salvini að hafa „blekkt þjóðina“.