Í samtali við Vísi segir Karl enga kvöð um gangandi umferð hvíla á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi. Borgin er með málið til skoðunar.
„Þeir hafa verið að sekta bílana okkar þarna og hafa ekki verið almennilegir, stöðumælaverðirnir,“ segir Karl. Hann segir að svæðið sem um ræðir tilheyri einkalóð sinni en ekki borgarlandi.
„Þeir eru að túlka þetta eitthvað voðalega vitlaust,“ segir Karl og áréttar þar að hann eigi við borgaryfirvöld en ekki stöðumælaverði í Reykjavík.
„Einhvers staðar að koma fyrirmælin.“
Karl segir málið „hundfúlt“ og vill hann helst sjá Reykjavíkurborg ganga frá málinu sem fyrst.
„Við erum ekki að halda þessu opnu fyrir almenning. Þetta er búið að vera bílastæði í 30 ár. Við erum búin að eiga þetta svo lengi, fjölskyldan, svo allt í einu byrja þeir að sekta, svo hætta þeir að sekta, svo byrja þeir aftur.“
Karl segir að þrátt fyrir allt sé hann jákvæður og vilji sjá málið klárað í öllu réttlæti.
Borgin skoðar málið
Vert er að taka fram að í deiliskipulagi miðborgarinnar segir:„Á milli Tryggvagötu 18 og Vesturgötu 8-10A gengur sund með grásteinsveggjum á báðar hliðar, annars vegar sökklar Vesturgötuhúsanna og hins vegar bakhlið Tryggvagötu 18. Þetta sund er skemmtileg tenging um tröppur upp á Vesturgötu og er lögð áhersla á að það haldi sér enda er gert ráð fyrir að millisvæði reitsins verði eftirsóknarvert miðbæjarrými með góðum göngutengingum um þennan hluta reitsins.“
Þá segir einnig að hugmyndin sé að skapa nýtt „borgarrými“ á milli húsanna. Í dag sé baklóðin frekar eins og „afgangssvæði“ við Tryggvagötuna.
„Kvöð um göngutengsl er sett á lóðina austast,“ stendur einnig í deiliskipulaginu.
Vísir hafði samband við Bjarna Brynjólfsson, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar og spurðist fyrir um málið. Eftir að hafa kannað málið stuttlega sagðist Bjarni lítið geta tjáð sig um lokun Karls fyrir gangandi umferð.
„Þetta er bara í skoðun hjá borginni, hvort hann sé í rétti til þess að gera þetta,“ sagði Bjarni. Og þar við sat.