Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hótar pólitískum andstæðingum sínum því að hneppa þá í fangelsi reyni þeir að kæra hann fyrir embættisbrot. Forsetinn hefur legið undir gagnrýni fyrir linkind við kínversk stjórnvöld eftir að kínverskt skipt sökkti filippseysku fiskiskipi fyrr í þessum mánuði.
Fyrrverandi utanríkisráðherra landsins og hæstaréttardómari eru á meðal þeirra sem telja að Duterte hafi brotið á stjórnarskrá landsins með því að afsaka kínversk stjórnvöld og leyfa kínverskum skipum að veiða innan efnahagslögsögu Filippseyja. Duterte brást ókvæða við gagnrýninni.
„Ég? Ákærður fyrir embættisbrot? Ég fangelsa þá alla. Reynið það og ég geri það. Tíkarsonur,“ sagði forsetinn sem er þekktur fyrir fúkyrðaflaum og ofsa.
Manaði hann pólitíska andstæðinga sína jafnframt til að kæra sig fyrir embættisbrot.
„Viljið þið virkilega neyða mig til þess? Allt í lagi. Gerið það, tíkarsynirnir ykkar. Já. Leggið hana fram,“ segir forsetinn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Ríkisstjórn Duterte hefur verið sökuð um ofsóknir á pólitískum andstæðingum og árásir á tjáningarfrelsi á Filippseyjum. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði á mánudaginn að fólk sem tjáir sig á Filippseyjum sé í raunverulegri hættu á að vera beitt ofbeldi sem opinberir embættismenn hóta því.
Asísk þingmannanefnd um mannréttindamál gagnrýndi Duterte-stjórnina einnig í skýrslu í vikunni fyrir hótanir, ofsafengna orðræðu og tilbúnar ákærur á hendur pólitískum andstæðingum. Þær væru vísvitandi tilraun til að þagga niður í gagnrýnendum og draga úr eftirliti með stjórnvöldum.
Duterte hótar andstæðingum sínum fangelsi
Tengdar fréttir
Duterte styrkir stöðu sína
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, vann sigur í kosningum sem fram fóru í síðustu viku.