„Það er að minnsta kosti komið sýnishorn af flestu,“ segir Guðni Hólmar Kristinsson, framkvæmdastjóri afurðasviðs Sölufélags garðyrkjumanna, um það hvernig gangi að koma sumaruppskerunni af íslensku grænmeti í verslanir.
„Kartöflurnar eru komnar á fullt, má segja, og ættu að vera til í flestum búðum. Annað af þessu útiræktaða er kannski ekki alveg komið á fullan skrið enn þá en það fer að koma töluvert af spergilkáli seinni partinn í þessari viku eða í næstu viku,“ segir Guðni. Síðan muni aðrar tegundir fylgja koll af kolli.

Þessar tegundir verða síðan í boði fram á haust. „Blómkál og spergilkál klárast yfirleitt í október eða nóvember,“ nefnir Guðni sem dæmi.
Um verðlag segir Guðni litlar breytingar vera á milli ára. „Það eru náttúrlega einhverja vísitölubreytingar,“ útskýrir hann. Ekki sé um að ræða toppa og lægðir eftir framboðinu. „Tímabilið er auðvitað mjög stutt fyrir blómkál og spergilkál og framboðið helst yfirleitt stöðugt þann tíma.“
Tíðin í sumar hefur að sögn Guðna verið hagstæð garðyrkjubændum. „Það hefur kannski vantað vætu þetta árið en þá eru menn bara að vökva á fullu. Ef menn eru í þessu þurfa þeir að vera búnir undir að vökva,“ segir hann. Uppskera ársins lítur því mjög vel út. „Flestar tegundir ættu að vera á góðu róli.“
Stórir jarðarberjaframleiðendur undir hatti Sölufélags garðyrkjumanna voru þrír en eru nú tveir eftir að gróðurhús skemmdist hjá einum þeirra í fyrravetur. Framboðið er því minna en Guðni segir það ekki valda erfiðleikum. „Það er verið að flytja inn jarðarber og þetta er bara brot af magninu og það hefur gengið vel í íslensku jarðarberjunum þetta árið.“