Hann birti í vikunni myndir sem hann hefur tekið í gegnum tíðina við Geysi en þær sýna vel hversu mikil hálka getur myndast á svæðinu með tilheyrandi hættu fyrir ferðamenn. Friðrik ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Því miður þegar það er frost þá er þetta ástandið á mjög mörgum stöðum. Sérstaklega hrekkur maður við þegar maður sér þetta á svona fjölförnum stað þar sem eru kannski sex til átta þúsund manns á dag að ganga. Það eru ekki allir svo forsjálir að vera með mannbrodda eða reikna með því að á svona svæðum þar sem er aðaltúristasvæði einhvers lands að menn skulu vera í lífshættu. Það er eitthvað sem menn reikna ekki með,“ segir Friðrik.
Margoft verið bent á slæmar aðstæður
Hann segist hafa bent á þessar aðstæður í fjöldamörg ár.„1977 skrifaði ég grein um þetta og svo var ég í viðtali við Magnús Hlyn fyrir fjórum árum um nákvæmlega sama hlutinn. Maður vonaðist til að einhver hefði tekið við sér og stigu fram og tækju einhverja ábyrgð. Svo byrjar þarna innheimta og gjaldtaka sem átti að fara í að gera við. Svo er búið að vera samkeppni um þessa hluti en það er eins og sé einhver bremsuklossastarfsemi alls staðar og það veit enginn hver ber ábyrgð á einu eða neinu á mörgum stöðum, því miður,“ segir Friðrik.
Hann kveðst hafa séð sjúkrabíla við Geysissvæðið á ýmsum tímum ársins en það sé ekki aðeins þar sem ástandið sé slæmt. Einnig sé mikil hálka niðri við svæðið þar sem horft er niður á Gullfoss og í Dimmuborgum fyrir norðan svo dæmi séu nefnd.
„Fólk er að detta víðar en það ratar ekki í fréttir,“ segir Friðrik.
Þá segir Friðrik að fólk sem sé lengi búið að starfa í ferðamannabransanum sé orðið þreytt á að ræða ástandið.
„Fólk er að leggja sig í alls konar hættu. Þetta er náttúrulega ekkert fyndið. […] Svo eru margir ekki þannig vanir svona göngusvæðum. Sumir sitja bara inni í rútunum og bíða ef veðrið er vitlaust,“ segir Friðrik en hlusta má á viðtalið við hann í spilaranum hér fyrir neðan.