Innlent

Landhelgisgæslan bjargaði fjórum eftir strand

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Frá björgun áhafnar Landhelgisgæslunnar utan við Súgandafjörð.
Frá björgun áhafnar Landhelgisgæslunnar utan við Súgandafjörð. Vísir/Landhelgisgæslan
Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að stjórnstöð barst tilkynning um klukkan tíu í kvöld að rúmlega tuttugu tonna fiskibátur hefði strandaði við Gölt, á utanverðum Súgandafirði. Samhliða voru sjóbjörgunarsveitir Slysavarnavarnafélagsins Landsbjargar kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að báturinn hafi skorðast fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á bátnum en hægur vindur var á svæðinu og þónokkur alda. 

Aðstæður erfiðar

Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði.

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og hófst áhöfn hennar þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð og voru þeir fluttir til Ísafjarðar.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við fréttastofu að björgunaraðgerðir hefðu gengið vel og að allir væru óslasaðir.

Varðskipið Týr er væntanlegt á strandsstað í fyrramálið og verða aðstæður skoðaðar með tilliti til þess hvort hægt verði að ná bátnum af strandsstað.

Hér að neðan má sjá myndband af björguninni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×