Erlent

Íranar aftur­kalla um­boð kjarn­orku­eftir­lits­manns

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá kjarnorkustöð Írana í Natanz.
Frá kjarnorkustöð Írana í Natanz. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Teheran hafa afturkallað umboð eftirlitsmanns Alþjóðakjanorkustofnunarinnar sem var bannað að kanna kjarnorkustöð í Íran í síðustu viku. Eftirlitsmaðurinn var sakaður um að bera með sér „grunsamlegt efni“. Bandaríkjastjórn segir meðferð Írana á eftirlitsmanninum „svívirðu“.

Alþjóðakjarnorkustofnunin (IAEA) hefur ekki tjáð sig um það þegar eftirlitsmanni hennar var bannað að fara inn í kjarnorkuver þar sem Íranar auðga úran í Natanz eða að umboð hans hafi verið afturkallað.

Íranar hafa í auknum mæli virt ákvæði kjarnorkusamningsins sem þeir gerðu við heimsveldin árið 2015 að vettugi eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði samningnum upp að hálfu Bandaríkjanna í fyrra og lagði refsiaðgerðir aftur á Íran.

Kjarnorkustofnun Írans fullyrti að eftirlitsmanninum hafi verið bannaður aðgangur þegar öryggiskerfi þar hafi gert viðvart um að hann væri mögulega með „grunsamlegt efni“ á sér. Það eigi að hafa verið sprengiefni.

Í kjölfarið var umboð eftirlitsmannsins til að starfa í Íran afturkallað. Hann er nú farinn úr landi til Austurríkis, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Svo virðist sem að vegabréf eftirlitsmannsins hafi verið tekið af honum tímabundið.

Uppákoman er sögð valda óvissu um hvernig staðið verði að eftirliti með kjarnorkuáætlun Írana í framhaldinu. Bæði Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið lýstu yfir áhyggjum af atvikinu. Fulltrúi Bandaríkjanna sagði það „svívirðilega ögrun“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×