Fótbolti

Arsene Wenger: Ég hef ekki talað við Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger hefur beðið þolinmóður eftir næsta starfi.
Arsene Wenger hefur beðið þolinmóður eftir næsta starfi. Getty/Jun Sato
Franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hefur verið sterklega orðaður við Bayern München undanfarna daga og sumir miðlar fóru svo langt í gær og í dag að fullyrða að hann yrði næsti stjóri þýska liðsins.

Arsene Wenger hefur nú stigið fram og tjáð sig um stöðu mála en hann segist ekkert vera búinn að tala við Bayern München.

Bayern München rak Niko Kovac eftir 5-1 tap á móti Eintracht Frankfurt í þýsku deildinni um helgina.







Wenger hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með Arsenal vorið 2018 eftir 22 ára starf. Hann vann ensku deildina þrisvar og enska bikarinn sjö sinnum á þessum tíma sínum hjá Arsenal og kom félaginu einnig í gegnum byggingu á Emirates leikvanginum sem kostaði nú skildinginn.

Wenger er orðinn sjötugur og hefur undanfarið unnið sem knattspyrnusérfræðingur hjá beIN Sports. Hann var í settinu þegar Bæjarar mættu Olympiakos í Meistaradeildinni í gær.

„Ég myndi aldrei neita að tala við Bayern München því ég þekki þetta fólk sem hefur stýrt málum hjá Bayern í þrjátíu ár,“ sagði Arsene Wenger.

„Ég var næstum því farinn til Bayern fyrir löngu síðan. Núna hef ég aftur á móti ekkert talað við Bayern. Við höfum ekki talað saman og ég veit ekki hvort við munum gera það,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×