Íslandsbanki tilkynnti starfsfólki sínu í morgun að fyrirtækið ætli sér að segja upp sextán manns. Uppsagnirnar eru að sögn Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka, liður í hagræðingaraðgerðum bankans.
Um er að ræða starfsfólk í höfuðstöðvum bankans í Norðurturni í Kópavogi og í útibúum. Lokun útibúa sé þó ekki liður í aðgerðunum sem tilkynnt var um í morgun að sögn Eddu.
Íslandsbanki sé hins vegar að breyta þeirri þjónustu sem bankinn hefur veitt í útibúum sínum á Granda og Höfða. Þar verði ekki lengur að finna „hefðbundna ráðgjafaþjónustu,“ eins og Edda kemst að orði, en áfram verði hægt að sækja þangað „einfaldari afgreiðslu.“ Þannig sé húsnæðislánaþjónustan sem mátti sækja í útibúin komin í höfuðstöðvarnar.
„Við erum því aðeins að breyta þjónustustiginu í þessum tveimur útibúum, þau eru enn opin og þar má áfram nálgast gjaldkera,“ segir Edda.

