Forseti Alþingis segir uppátæki stjórnarandstöðunnar, sem ákvað að sniðganga atkvæðagreiðslur í gær, vera skírt brot á þingskaparlögum. Þetta eigi sér fá fordæmi og vonar hann að þessi uppákoma endurtaki sig ekki. Með því að sniðganga atkvæðagreiðslur í gær reyndi stjórnarandstaðan að beita forseta Alþingis og ríkisstjórnarflokkana þrýstingi um að semja við stjórnarandstöðuna um það hvaða mál verða tekin á dagskrá fyrir jólahlé. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kveðst ósáttur með uppátækið.
„Það voru tæplega 40 þingmenn, 38 þingmenn, skráðir í húsi þegar þessi atkvæðagreiðsla átti að hefjast sem var meira en nóg en undir 30 sem voru í salnum þannig að einhvers staðar var þessi hópur annars staðar en þar sem hann átti að vera,“ segir Steingrímur. Þar sem óvenju margir þingmenn eru fjarverandi, ýmist vegna veikinda eða þátttöku á fundum erlendis, sá stjórnarandstaðan sér leik á borði með því að mæta ekki til atkvæðagreiðslu. „Ég er ekki ánægður með þá uppákomu en erfi það svo sem ekkert ef menn komast aftur á rétt spor,“ segir Steingrímur.
Þetta eigi sér nokkur en fá fordæmi en hann voni að þetta komi ekki fyrir aftur. Hann segir lög um þingsköp alveg skír hvað varðar skildu þingmanna til að taka þátt í atkvæðagreiðslu. „Samkvæmt annarri málsgrein 78. greinar þingskaparlaga, þar segir einfaldlega skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu, nema hann hafi lögmæt forföll,“ segir Steingrímur.
„Þetta er mjög mikilvæg skylda vegna þess að menn eiga ekki rétt á því að koma sér undan því að sýna afstöðu sína eða taka afstöðu til mála einmitt í atkvæðagreiðslum, það er jú í atkvæðagreiðslum sem þingið talar fyrst og fremst og þingviljinn er leiddur í ljós.“