Erlent

Ís­lensk fjöl­skylda missti al­eiguna í bruna í Noregi

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjallað hefur verið um brunann í norskum fjölmiðlum.
Fjallað hefur verið um brunann í norskum fjölmiðlum. Aðsend
Sigurður Aðalgeirsson, unnusta hans Hólmfríður Guðmundsdóttir og dætur þeirra tvær Sóley Rós, 6 ára, og Bryndís Lena, 4 ára, misstu allar eigur sínar í bruna þegar eldur kviknaði á heimili þeirra í Hallingby í Noregi í gær.

„Mikil mildi var að þau komust öll út heil á húfi, á nærfötunum einum saman, sem er fyrir mestu og erum við öll mjög þakklát fyrir það,“ skrifa foreldrar Sigurðar, bræður og fjölskylda þeirra á Íslandi, þar sem þau greina frá sorglega atvikinu á Facebook.

Fjölskyldan er sögð hafa verið búsett í Hallingby frá árinu 2015 þar sem þau bjuggu upp í sveit.

„Það er mjög erfitt að vera svona langt í burtu við svona aðstæður og er hugur okkar hjá þeim,“ segir í færslunni.

Aðstandendur þeirra hafa nú stofnað til söfnunar fyrir fjölskylduna og má nálgast frekari upplýsingar um hana á Facebook síðunni Styrktarsíða Sigga, Hófýjar og dætra. Er söfnuninni ætlað að styðja við bakið á fjölskyldunni og hjálpa þeim að taka fyrstu skrefin út í lífið á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×