Markaðsstofa Norðurlands og Húsavíkurstofa gerðu nýverið með sér samkomulag um að þróa og efla markaðssetningu til ferðamanna á Demantshringnum svokallaða.
Þar má finna nokkrar af helstu náttúruperlum Íslands á borð við Ásbyrgi, Dettifoss og Mývatn. Nafnið hefur verið í notkun í nokkur ár en nú á að gefa í.
„Það hefur í rauninni verið vannýtt. Við vitum að þetta er til og aðilar á svæðinu eru að nota þetta en þetta er vannýtt vegna þess að innviðar eru ekki til staðar,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

„Þessi vegur, þessi vegspotti sem á eftir að klára hefur verið stór hindrun í að nýta þetta vel. Síðan er það líka að það er ekki verið að opna veginn að Dettifossi að vestanverðu yfir vetrartímann sem þýðir að við höfum ekki getað markaðssett þetta svæði að fullu,“ segir Arnheiður.
Og það er von á breytingum. Vegagerðin mun bjóða út síðasta áfanga Dettifossvegar eftir helgi og standa vonir til þess að vegurinn verði þá orðinn uppbyggður og fær öllum bílum fyrir veturinn.
Markmiðið er að Demantshringurinn geti orðið segull sem dragi ferðamenn að Norðurlandi.
„Þetta verður núna vonandi heilsársopnun. Það er það sem við sjáum fram á að verði svo að fyrirtækin geti farið að nýta sér þessar perlur sem eru á þessari leið,“ segir Arnheiður.