Innlent

Tugmilljóna tjón á Kleppsbakka eftir að flutningaskip sigldi á bryggjuna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kleppsbakki
Kleppsbakki Mynd/Faxaflóahafnir
Talið er líklegt að tugmilljóna tjón hafi orðið á bryggjunni við Kleppsbakka þegar danska flutningaskipip Naja Arctica sigldi inn í bryggjuna. Mbl.is greindi fyrst frá.

Skipið kom inn til bryggju snemma í morgun en tildrög slyssins eru óljós. Skipið átti að leggja að bryggjunni við Kleppsbakka en af einhverjum ástæðum sigldi skipstjórinn skipinu beint á bryggjuna.

„Hann fer inn í bryggjuna og gerir gat á hana,“ segir Gísli Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum í samtali við Vísi. Hann segir töluverðar skemmdir hafa orðið á bryggjunni sem muni líklega kosta tugi milljóna að lagfæra. Sá kostnaður muni falli á skipafélagið eða tryggingarfélag þess.

Tjónið verður metið betur á næstu dögum en ljóst er að viðgerð mun taka dágóðann tíma.

Ljóst er að slysið mun hafa einhver áhrif á starfsemi Eimskipa en Kleppsbakki er inn á athafnasvæði félagsins.

„Þetta eru svona sex til átta vikur en það skýrist betur næstu daga,“ segir Gísli.

Lögregla tók skýrslu af skipstjóra skipsins í morgun. Naja Arctica er 9.500 tonna flutningaskip með heimahöfn í Álaborg í Danmörku. Siglir það á vegum Royal Arctic Line með vörur til og frá Grænlandi og Danmörku með viðkomu á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×