Erlent

Fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Nýja-Sjálandi fimmtíu talsins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Nýja-Sjálandi eru nú orðin fimmtíu talsins.
Fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Nýja-Sjálandi eru nú orðin fimmtíu talsins. Vísir/ap
Tala þeirra sem létust í hryðjuverkunum í Christchurch á föstudag er komin upp í fimmtíu. Þetta staðfestir nýsjálenska lögreglan sem sagði að þetta hefði komið í ljós í gærkvöldi þegar unnið var að því að færa líkin úr annarri moskunni; Al Noor þar sem flest fórnarlambanna létu lífið.

Brenton Harris Tarrant, 28 ára yfirlýstur fasisti, sem framdi ódæðið var leiddur fyrir dómara að morgni laugardags að staðartíma og honum gerð grein fyrir ákærum á hendur honum.

Mike Bush, lögreglustjóri, sagði við fjölmiðla að ekki væri búið að birta lista yfir fórnarlömbin en nýsjálensk lögregluyfirvöld hafa þó náð sambandi við fjölskyldur þeirra sem létust í hryðjuverkunum.

Fimmtíu létust í árásinni en aðrir fimmtíu særðust og af þeim fimmtíu eru 34 sem enn eru á spítala. Tólf hinna særðu eru taldir vera í lífshættu og þar á meðal fjögurra ára stúlka.

Tarrant er sá eini sem er í varðhaldi og hefur verið ákærður fyrir morðin. Upphaflega voru þrír aðrir handteknir en það kom fljótlega í ljós að þeir tengdust ódæðinu ekki.

Nýsjálensk lögregluyfirvöld eru þó ekki búin að útiloka að fleiri gætu hafa komið að skipulagningu hryðjuverkanna en lögreglustjórinn segist bjartsýnn á að geta haft skýrari mynd af atburðarrásinni innan fárra daga.

Nýsjálenska lögreglan hefur náð sambandi við fjölskyldur hinna látnu.Vísir/ap

Tengdar fréttir

Barst stefnuyfirlýsing hryðjuverkamannsins í tölvupósti

Nokkrum mínútum áður en hryðjuverkamaðurinn Brenton Tarrant lét til skarar skríða og myrti 49 manns í tveimur moskum í borginni Christchuch í Nýja-Sjálandi sendi hann tölvupóst til Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, með stefnuyfirlýsingu (e. manifesto) sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×