Á fimmta tímanum í gær barst lögreglu tilkynning um bruna í hjólhýsi og bíl. Var umferð lokað um svæðið og hröðuðu slökkviliðsbílar sér á vettvang. Eigandi hjólhýsisins var inni í því þegar eldur blossaði upp, en hjólhýsið hefur verið heimili hans í 14 ár.

Haukur sat í rólegheitum og horfði á enska boltann þegar eldurinn blossaði upp fyrir aftan hann. Hann sagðist vera heppinn að hafa náð að hraða sér út því skömmu seinna fuðraði hjólhýsið upp.
Sem betur fer komst Haukur í tæka tíð út úr hjólhýsinu. Þó reyndi hann að skríða aftur inn til að bjarga eigum sínum en varð fljótt ljóst að sú tilraun yrði ekki líkleg til árangurs, því í sömu andrá var hjólhýsið orðið alelda. Það eina sem bjargaðist voru bíllyklar sem fyrir einskæra hepppni voru í buxnavasa Hauks.
„Það fór allt saman, allir lyklar. Það fór allt. Ég hafði ekki tíma til að koma eignum í burtu. Ég ætlaði inn aftur en það var ekki séns,“ sagði Haukur.
Slysavarnarfélagið lánaði Hauki föt til að klæðast og fékk hann lánað greiðslukort til að verða sér úti um lyf þar sem allar eigur Hauks urðu eldinum að bráð.
Hvað tekur við?
„Ég veit það ekki, ég er ekki búinn að átta mig á því enn hvað ég geri. Þetta var mikið áfall, geysilega mikið áfall,“ sagði Haukur.