Lífið

Heillaði hátíðargesti upp úr skónum með frábæru opnunaratriði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
James Corden, alltaf glæsilegur.
James Corden, alltaf glæsilegur. John Paul Filo/Getty
James Corden setti Tony-verðlaunahátíðina þetta árið af stað með einkar glæsilegu söngleikjaatriði á sunnudaginn. Í atriðinu lofsamaði hann leik á sviði á kostnað sjónvarps og streymisveita en laumaði þó nokkru lofi í átt að sjónvarpinu, sem hingað til hefur verið hans helsta svið en hinn enski Corden er einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi Bandaríkjanna.

Corden var einnig kynnir hátíðarinnar en þetta er í annað sinn sem hann gegnir því hlutverki. Fyrra skiptið var árið 2016. Opnunaratriði hátíðarinnar, þar sem Corden var í aðalhlutverki, þótti afar tilkomumikið, en það var heilar tíu mínútur að lengd.

Í atriðinu fjallar Corden um þá lesti sem vinsælasta form afþreyingar í dag, sjónvarpið, kann að hafa og leggur þess í stað til að fólk fari í leikhús að horfa á „raunverulegt fólk á raunverulegum stað.“

Boðskapur atriðisins er að sjálfsögðu settur fram í gríni og er aðallega ætlað að benda á kosti leikhússins fremur en ókosti sjónvarpsins, en í atriðinu gantast Corden með að sjónvarp sé í raun mun betra form afþreyingar þar sem það gefi meira í aðra hönd.

Sjón er sögu ríkari en sjá má atriðið hér að neðan.

Þetta var í 73. sinn sem Tony-verðlaunin voru veitt en þau fást fyrir framúrskarandi árangur á hinum ýmsu sviðum Broadway-söngleikja. Hér má sjá lista yfir þá sem báru sigur úr býtum í sínum flokkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.