Golfsamband Íslands hefur samið við Ólaf Björn Loftsson um að hann verði aðstoðarmaður nýráðins afreksstjóra GSÍ. Gregor Brodie tók við starfi afreksstjóra GSÍ fyrr á þessu ári og mun Ólafur Björn verða honum innan handar. Það var golf.is sem greindi frá þessu.
Ólafur Björn hefur lengi verið í fremstu röð afrekskylfinga á Íslandi. Hann varð Íslandsmeistari í golfi árið 2009 og fetaði þar með í fótspor föður síns, Lofts Ólafssonar.
Ólafur mun starfa sem framkvæmdastjóri PGA á Íslandi samhliða því að leika sem atvinnukylfingur og sitja á skólabekk í PGA kennaraskólanum á Íslandi.
Ólafur er einn reynslumesti landsliðsmaður Íslands í flokki áhugakylfinga og hann er eini íslenski kylfingurinn sem hefur fengið tækifæri til að keppa á PGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum.
„Við erum mjög ánægð að fá Ólaf til liðs við okkur og erum fullviss um að þeir í sameiningu með öllu því góða fagfólki sem starfar í golfklúbbum landsins og fagteymi GSÍ muni færa okkar afrekskylfingum og íþróttinni í heild mikið á komandi misserum,“ segir Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, í samtali við golf.is.
