Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík 101-77 Þór Þ. | Sjötti sigur Njarðvíkur í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/bára

Njarðvík tók á móti Þór Þ. í síðustu umferð Domino's deildar karla á árinu 2019. Njarðvík hafði unnið 5 leiki í röð fyrir einvígið.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs, sneri aftur á kunnuglegar slóðir en fer ekki með sérlega góðar minningar héðan í kvöld eftir að hans lið fékk útreið gegn heitum Njarðvíkingum.

Mikið var skorað í fyrri hálfleik og voru Þórsarar vel inni í leiknum þegar seinni hálfleikurinn var framundan.

Fljótlega varð ljóst í hvað stefndi en Njarðvík kom sér upp 20 stiga forystu þegar 3. leikhluti var rétt rúmlega hálfnaður og þá var ekki aftur snúið.

Njarðvíkingar héldu áfram allan leikinn og áttu mjög góðan seinni hálfleik þar sem þeir kláruðu leikinn sannfærandi. Lokatölur 101-77 og aldrei spurning hjá heimamönnum.

Af hverju vann Njarðvík?

Heimamenn voru frábærir í seinni hálfleik en fyrir utan 1. leikhluta og 5 mínútna kafla í þeim 3. átti liðið frábæran leik. Sóknarleikurinn gekk smurt fyrir sig og vörnin var sérstaklega góð í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Þórsvörnin náði ekki að stíga almennilega upp í kvöld þegar á þurfti að halda en í seinni hálfleik náði sóknin heldur ekki að leysa úr varnarleik Njarðvíkur.

Þórsarar náðu smá áhlaupi í 3. leikhluta en eftir það var allur kraftur úr þeim og þeir náðu ekki að halda pressunni áfram sem þeir þurftu til að koma til baka.

Hverjir stóðu upp úr?

Þrátt fyrir einn versta leik Þórs í vetur þá átti Vincent Bailey virkilega góðan leik og skoraði 27 stig. Þetta var hans síðasti leikur fyrir Þór en hann mun yfirgefa félagið á næstu dögum.

Njarðvíkingar voru geggjaðir. Chaz Williams var hæstur í mörgum tölfræði þáttum og skoraði 21 stig með 30 í framlag. Mario Matasovic skoraði 25 stig en allir leikmenn Njarðvíkur sem voru á skýrslu komust á blað í kvöld.

Hvað gerist næst?

Jólin eru á næsta leyti og ekkert verður spilað í næstu viku sem þýðir að 12. umferðin fer fram á nýju ári.

Þá sækja Þórsarar eitt besta lið landsins heim, Stjörnuna. Njarðvík eiga annan heimaleik og það gegn ÍR.

Friðrik Ingi: Okkar slakasti leikur í vetur

„Það er alltaf vont þegar þú spilar svona og eitthvað sem þú vilt ekki. Þetta var okkar slakasti leikur í vetur, það verður að segjast alveg eins og er.“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs Þ., eftir leikinn í kvöld. Þórsarar áttu erfitt uppdráttar í kvöld og voru að gera sjálfum sér erfitt fyrir með töpuðum boltum og sóknarfráköst andstæðinganna.

„Við vorum allt í lagi í fyrri hálfleik en það voru ákveðin teikn á lofti í fyrri hálfleik sem náðu flugi í seinni hálfleik. Það voru annars vegar tapaðir boltar og sóknarfráköst sem Njarðvík voru að taka.“

„Við vorum ekki á vaktinni, það gerði okkur erfitt fyrir. Það lagði grunninn að þessu og þeir fengu mikið af hraðaupphlaups- og tempó körfum þar sem þeir slíta sig frá okkur. Þá vorum við komnir ofan í holu.“

„Varnarleikurinn og tempóið var þess eðlis að við misstum flugið. Eins og ég segi, við vorum ekki góðir, þetta var okkar slakasti leikur í vetur.“

Þórsarar náðu smá áhlaupi í 3. leikhluta og voru nálægt því að minnka muninn í 10 stig en þá náðu Njarðvíkingar áttum og svöruðu með nokkrum stigum í röð og lokuðu í raun leiknum.

„Það fór smá orka í það og þeir fundu leið aftur og náðu aftur að skora einhverjar 2-3 körfur í röð og það slökkti endanlega á okkur í rauninni. Þeir vinna verðskuldaðan sigur, þeir voru einfaldlega miklu betri í þessum leik.“

Það eru breytingar framundan hjá Þór þar sem Vincent Bailey, sem átti góðan leik í kvöld og hefur verið flottur hjá Þór í vetur, mun ekki snúa aftur til liðsins eftir áramót.

„Það er búið að liggja fyrir í svolítinn tíma að Vinny kemur ekki aftur eftir áramót af persónulegum ástæðum. Allt gert í bróðerni og við óskum honum velfarnaðar.“

„Hann baðst lausnar þannig að við þurftum að fara í málin og allt uppi á borðum. Það er búið að vera pínu óvissa síðustu daga og vikur hvernig þetta þróast en nú fáum við ágætis tíma. Nú verðum við að koma nýjum manni inn í okkar hluti, við horfum bjartsýnir fram á það og ætlum að koma tilbúnir til leiks í seinni hálfleikinn eftir áramót.“ sagði Friðrik Ingi að lokum.

Einar Árni: Sterkt liðsframlag

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur var mjög sáttur með sigurinn og frammistöðuna en Njarðvík spilaði flottan leik og vann sannfærandi gegn Þóri frá Þorlákshöfn fyrr í kvöld.

„Þetta var virkilega góður sigur og gott að fara inn í jólin með svona góðum sigri á sterku Þórsliði, ég er virkilega ánægður.“

Frammistaðan var eins og áður sagði mjög góð en Einar Árni var sérstaklega ánægður með seinni hálfleikinn og hvernig liðið spilaði sem heild.

„Mér fannst vörnin í seinni hálfleik mun sterkari. Þórsliðið hefur ekki verið að tapa mörgum boltum, tapa 25 boltum (í dag). Það er styrkur í varnarleiknum, mér fannst við gera þeim erfitt fyrir.“

„Við náðum að ýta þeim í erfið skot, hlupum gólfið vel. 29 stoðsendingar á liðið sýnir að menn voru virkilega að vinna þetta saman og með aðeins betri nýtingu fyrir utan 3ja stiga línuna þá hefðum við getað verið á ennþá betri stað. En fyrst og síðast virkilega ánægður með sigurinn og sterkt liðsframlag.“

„Við náum í 8 stiga forystu í hálfleik og byrjum seinni hálfleikinn mjög sterkt. Þegar þetta fór snemma í síðari hálfleik upp í í kringum 20 stigin þá fannst mér þetta aldrei vera í hættu.“

Nú er smá jólafrí í deildinni og Njarðvík fer inn í fríið í frábæru formi með 6 sigra í röð eftir slæma byrjun.

„Það er gott og sérstaklega í ljósi þess að við fórum í gegnum erfiðar október og vorum 1-4 eftir þessa fyrstu 5 leiki.“

„Snúum genginu við sem skiptir miklu máli og spilamennskan verið heilt yfir töluvert betri. Við erum samt að fara inn í jólafríið, búnir að ræða það í klefanum, að við þurfum að halda áfram að vinna í okkar leik. Það eru 2 mót eftir, seinni hálfleikurinn og svo úrslitakeppnin,“ sagði Einar Árni að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira