Innlent

Eins og fyrir skíðakappa að komast ekki í Hlíðarfjall

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Björn Jóhann Jónsson, formaður stjórnar Hestamannafélagsins Léttis, fagnar niðurstöðunni og vonast til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst, enda sé brúarleysið fyrir hestamenn eins og ef skíðaköppunum norðan heiða yrði meinaður aðgangur að Hlíðarfjalli.
Björn Jóhann Jónsson, formaður stjórnar Hestamannafélagsins Léttis, fagnar niðurstöðunni og vonast til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst, enda sé brúarleysið fyrir hestamenn eins og ef skíðaköppunum norðan heiða yrði meinaður aðgangur að Hlíðarfjalli. FBL/pjetur sigurðsson
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að farið verði í útboðsferli vegna brúar yfir Eyjafjarðará. Þá hefur bæjarráð falið bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Landsnets, Vegagerðarinnar og Isavia um aðkomu að framkvæmdinni.

Björn Jóhann Jónsson, formaður stjórnar Hestamannafélagsins Léttis, fagnar niðurstöðunni og vonast til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst, enda sé brúarleysið fyrir hestamenn eins og ef skíðaköppunum norðan heiða yrði meinaður aðgangur að Hlíðarfjalli.

Héraðsmiðillinn Vikudagur greindi fyrst frá þessu. Nýja brúin er í aðalskipulagi Akureyrarbæjar en áætlaður kostnaður við hana er 150 milljónir króna.

Breyta þurfti reiðleiðinni sem liggur frá Akureyri yfir Eyjafjarðará yfir í Eyjafjarðarsveit vegna uppsetningar við aðflugsbúnað við Akureyrarflugvöll. Búið er að loka gömlu brúnni og til stóð að hefja framkvæmdir á haustmánuðum en bæjaryfirvöld ákváðu að fresta þeim, við mikla óánægju hestamanna. Nú hefur aftur á móti verið samþykkt að brúarverkefnið fari í útboð.

Björn Jóhann segir að um sé að ræða aðalreiðleið hestamanna sem sé afar þýðingarmikil fyrir hestamenn. „Ef þetta hefði ekki gengið upp væri þetta þvílík aðför að þessari íþróttagrein,“ segir Björn Jóhann.

Þetta sé mikilvægt fyrir hestamenn sem nýti sér reiðleiðina allt árið um kring. Í ljósi nýjustu frétta kveðst Björn Jóhann bjartsýnn að brúarverkefnið geti orðið að veruleika, hestamönnum á svæðinu til heilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×