Viðskipti innlent

Argentína keyrð í 137 milljóna gjaldþrot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Argentína steikhús opnaði í október 1989 og var lengi eitt ástsælasta steikhús borgarinnar.
Argentína steikhús opnaði í október 1989 og var lengi eitt ástsælasta steikhús borgarinnar.
Engar eignir fundust í búi BOS ehf., sem rekið hafði steikhúsið Argentínu við Barónstíg. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í maí í fyrra en veitingastaðnum var skellt í lás í byrjun aprílmánaðar 2018.

Skiptum lauk í búið þann 21. desember síðastliðinn, en í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að lýstar kröfur í bú BOS hafi alls numið rúmlega 137 milljónum króna. Sem fyrr segir fannst ekkert í búinu og var skiptum því lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskiptana, 2. maí 2018.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma eignaðist athafnamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson rekstur Argentínu í október árið 2017. Hann fór með stöðu stjórnarformanns í BOS, en hann var sakaður um að hafa reynt að greiða skuldir með steikum.

Steikhúsið var áður í eigu félagsins Potts en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í mars árið 2017. Ekkert fékkst greitt upp í 86 milljóna kröfur í þrotabú Potts. Mismunurinn á kröfum í bú Potts og bú BOS nemur því um 50 milljónum króna. Kristján Þór Sigfússon átti Pott ehf. en hann hafði verið annar eigenda Argentínu nánast frá upphafi. Taprekstur hafði verið á Argentínu undanfarin ár og skuldabyrðin þung.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði í febrúar árangurslaust fjárnám í félaginu BOS. Greiðsluáskoranir höfðu borist frá lífeyrissjóðum á innan við tveimur mánuðum eftir að félagið tók við rekstrinum haustið 2017. Hluti starfsfólksins fékk ekki greidd laun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×