Tyrkneski miðherjinn Enes Kanter mun ekki fara með liðsfélögum sínum í New York Knicks til London þar sem liðið mun leika NBA leik gegn Washington Wizards í O2-höllinni þann 17.janúar næstkomandi.
Ástæðan er sú að hann óttast tyrkneska njósnara í Evrópu og Kanter hefur svo sannarlega ástæðu til að óttast.
Hann hefur ekki farið leynt með skoðanir sínar á tyrkneska forsetanum Recep Tayyip Erdogan og hefur komist í hann krappann á ferðalögum til Evrópu vegna þessa.
Árið 2017 var honum haldið á flugvelli í Rúmeníu þar sem stjórnvöld í Tyrklandi fyrirskipuðu að vegabréf hans yrði gert ógilt. Honum tókst þó að komast til Bandaríkjanna að lokum en í kjölfarið af ógildingu vegabréfsins var gefin út handtökuskipun á Kanter. Hann hefur því ekki mikinn áhuga á að ferðast til Evrópu.
„Það er möguleiki á að ég verði myrtur þarna svo ég ætla bara að halda kyrru fyrir hér. Ég vil að sjálfsögðu hjálpa liði mínu en þetta kemur í veg fyrir að ég geti unnið mína vinnu. Það er sorglegt,“ segir Kanter.
Knicks hafði áður gefið út að Kanter myndi ekki ferðast með liðinu í leikinn vegna vandamála með vegabréfaáritun.
Körfubolti