Handbolti

Þýsk goðsögn segir Ísland léttasta mótherjann en varar við Aroni og ungu strákunum

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Aron Pálmarsson er svo sannarlega í heimsklassa.
Aron Pálmarsson er svo sannarlega í heimsklassa. vísir/getty
Ísland er líklega léttasti mótherjinn eða fýsilegasti andstæðingurinn sem Þýskaland mætir í millriðli HM 2019 í Köln að mati Henning Fritz, fyrrverandi markvarðar þýska landsliðsins, sem varð heimsmeistari í Lanxess-höllinni í Köln fyrir tólf árum.

Strákarnir okkar hefja einmitt leik á móti Þýskalandi í Köln klukkan 19.30 þar sem nær allir 20.000 áhorfendurnir verða á bandi þýska liðsins sem er með þrjú stig í millriðlinum eftir fína frammistöðu í riðlakeppninni.

„Lanxess-höllin er þekkt fyrir einstaka stemningu hvort sem um ræðir HM 2007 eða Final Four-helgarnar. Stuðningsmennirnir í Köln eru vanalega mjög æstir þannig menn ættu að njóta þess að spila þarna og drekka í sig stemninguna,“ segir Fritz í pistli sínum á heimasíðu þýska handknattleikssambandsins.

Þjóðverjar mæta einnig Króötum sem hafa spilað mjög vel á mótinu og Evrópumeisturum Spánar sem hafa ekki verið jafngóðir en eru auðvitað með eitt besta lið heims. Fyrsta verkefni er þó að klára litla Ísland.

„Ísland er líklega léttasti andstæðingurinn af þessu þremur og því er fínt að byrja milliriðilinn á þessum leik til að auka sjálfstraustið í liðinu,“ segir Fritz en slær samt varnagla.

„Íslendingarnir eru samt sterkir maður á mann og spila boltanum hratt. Aron Pálmarsson er einn besti leikstjórnandi heims og í heimsklassa maður á mann. Ungu strákarnir í íslenska liðinu eru svo algjörlega óhræddir og taka hlutverkum sínum fagnandi með mikilli ástríðu. Þeir geta alveg strítt þýska liðinu,“ segir Henning Fritz.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×