Fréttablaðið fjallaði um það síðastliðið sumar að til skoðunar væri með hvaða hætti ætti að bregðast við kvörtun starfsmanns sem var misboðið af málverkunum sem innihalda nekt. Fréttin vakti verðskuldaða athygli og sitt sýndist hverjum. Nú liggur fyrir niðurstaða þessarar skoðunar og var hún að myndirnar skyldu fjúka.
„Ákveðið var að þessi málverk yrðu ekki á almennum vinnusvæðum eða á skrifstofum yfirmanna, þ.e. á þeim svæðum þar sem almennir starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins um lyktir málsins.

Ljóst er að listunnendur munu margir súpa hveljur yfir morgunkaffinu í dag yfir svörum Stefáns Jóhanns.
„Þau eru um þessar mundir í geymslu og ekki hefur verið tekin ákvörðun um aðra notkun þeirra.“

„Þá mætti alveg eins pakka hálfri listasögunni ofan í geymslu. Mannslíkaminn, bæði karla og kvenna, hefur lengi verið viðfangsefni listamanna,“ segir Goddur og fer á flug. Hann viti til þess að það séu styttur af berum karlmanni eftir Bertel Thorvaldsen í borginni, fullt af brjóstum í verkum Ásmundar Sveinssonar líka.
„Það þarf aldeilis að taka hér til. Við þurfum að gerast aftur alvöru púritanar og fara með hálft listasafn þjóðarinnar og allra þjóða og læsa það í geymslum! Ég styð púrítanisma. Lengi hann lifi!“ segir listspekúlantinn kaldhæðinn að lokum.