Erlent

Dómsmálaráðherraefni Trump kemur fyrir þingnefnd

Kjartan Kjartansson skrifar
Barr var spurður fjölda spurninga um Rússarannsóknina og Trump forseta þegar hann kom fyrir þingnefnd í dag.
Barr var spurður fjölda spurninga um Rússarannsóknina og Trump forseta þegar hann kom fyrir þingnefnd í dag. Vísir/EPA
William Barr, dómsmálaráðherraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sagðist myndu leyfa Robert Mueller, sérstaka rannsakanda ráðuneytisins, að ljúka rannsókn sinni á meintu samráði framboðs Trump við Rússa sem ráðherra. Barr kom fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem þarf að samþykkja skipan hans í dag.

Rússarannsóknin svonefnda setti svip sinn á yfirheyrslurnar yfir Barr hjá nefndinni í dag. Trump tilnefndi Barr, sem var dómsmálaráðherra í tíð George H.W. Bush, til að taka við af Jeff Sessions sem hann rak daginn eftir þingkosningarnar í nóvember.

Barr skrifaði meðal annars minnisblað til dómsmálaráðuneytisins í fyrra þar sem hann gagnrýndi rannsókn Mueller harðlega og taldi hana hafa farið úr böndunum.

Annan tón kvað við hjá Barr fyrir þingnefndinni í dag. Þar sagðist hann ekki telja að sérstaki rannsakandinn myndi stunda „nornaveiðar“ eins og Trump forseti hefur ítrekað sakað Mueller um að gera. Þá sagði hann mikilvægt að þingið og almenningur fengi aðgang að niðurstöðum Mueller þegar þær liggja fyrir.

Þrátt fyrir það lýstu sumir demókratar í nefndinni áhyggjum af afstöðu sem Barr hefur látið uppi varðandi völd forsetans. Þannig las Dianne Feinstein, þingmaður flokksins frá Kaliforníu, upp fyrri yfirlýsingar Barr um hlutverk dómsmálaráðherra og völd forsetans. Þar á meðal voru ummæli Barr um að hann teldi að stjórnarskrá Bandaríkjanna takmarkaði ekki rétt forsetans til að stýra löggæslu- og dómsmálum, jafnvel þegar þau vörðuð hann sjálfan eða framferði hans.

Sessions lýsti sig vanhæfan til að hafa umsjón með Rússarannsókninni fljótlega eftir að Mueller var skipaður árið 2017. Barr sagði í dag að hann teldi það hafa verið rétt ákvörðun hjá Sessions í ljósi þess að hann hefði unnið fyrir forsetaframboð Trump og þannig átt í hagsmunaárekstri. Lofaði hann einnig Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, sem hefur haft umsjón með rannsókninni. Rosenstein hefur ítrekað verið skotspónn árása Trump forseta. Hann er talinn ætla að stíga til hliðar þegar Barr tekur við embætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×