Erlent

Hnignun kolaiðnaðarins heldur áfram þrátt fyrir fyrirheit Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuver í Bandaríkjunum hafa átt undir högg að sækja, ekki síst vegna ódýrs jarðgass sem hefur flætt út á markaðinn undanfarin ár.
Kolaorkuver í Bandaríkjunum hafa átt undir högg að sækja, ekki síst vegna ódýrs jarðgass sem hefur flætt út á markaðinn undanfarin ár. Vísir/Getty
Fleiri kolaorkuverum hefur verið lokað í Bandaríkjunum á fyrri helmingi kjörtímabils Donalds Trump forseta en á öllu fyrra kjörtímabili Baracks Obama þrátt fyrir markvissar tilraunir Trump til að blása lífi í hnignandi kolaiðnaðinn. Uppgangur í jarðgasi og endurnýjanlegum orkugjöfum hefur kippt fótunum undan kolaorkuverkunum.

Alls var kolaorkuverum sem framleiddu meira en 23.500 megavött orku lokað frá 2017 til 2018 samkvæmt gögnum Reuters-fréttastofunnar og Orkuupplýsingastofnunar Bandaríkjanna. Til samanburðar hurfu 14.900 megavött kolaorku frá 2009 til 2012, fyrsta kjörtímabil Obama þáverandi forseta.

Trump forseti lofaði að endurvekja kolaiðnaðinn í kosningabaráttu sinni. Ríkisstjórn hans hefur afnumið fjölda umhverfis- og loftslagsreglna sem settar voru í tíð Obama til að auðvelda kolaorkuverum lífið. Engu að síður var samdrátturinn í kolaorku í fyrra sá annar mesti í sögunni á eftir árinu 2015 þegar Obama var enn forseti.

Ekki sér fyrir endann á hnignun kolaiðnaðarins. Orkufyrirtækin segja ætla að loka verum sem framleiða samtals 8.422 megavött á þessu ári. Á móti ætla þau að bæta við vind-, sólar- og gasorku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×