Fótbolti

Sara Björk: Maður fann að það var gamla liðið að koma til baka

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Björk í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Björk í leik með íslenska landsliðinu. vísir/getty
„Ég er fyrst og fremst ótrúlega ánægð með sigurinn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandslið Íslands í fótbolta, eftir 2-1 sigur á Skotum í vináttulandsleik á La Manga í dag.

Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Íslands í upphafi síðari hálfleiks áður en Skotland náði að klóra í bakkann undir lokin. Leikurinn var fyrsti leikur liðsins undir stjórn þjálfarans Jóns Þórs Haukssonar.

„Við spiluðum ekkert rosalega vel í fyrri hálfleik og vorum bara frekar slakar en komum til baka sterkar. Maður fann að það var gamla liðið að koma til baka og það er jákvætt.“

Skotarnir eru ógnasterk þjóð í kvennaboltanum og þær verða meðal annars meðal þáttökuþjóða á HM í Frakklandi næsta sumar.

„Skotar eru með frábært lið. Þær eru með mikið af rosalega ungum og efnilegum leikmönnum. Þetta var alveg hörkuleikur og leikur sem við þurftum á að halda. Ég er ótrúlega ánægð með hvernig liðið svaraði lélegum fyrri hálfleik.“

„Við komum sterkar til baka í seinni og skorum tvö mörk. Þetta var flottur sigur og frábær byrjun á árinu. Við þurftum á þessu að halda; smá sjálfstrausti og fá sigurtilfinninguna.“

Sara segir að það séu einhverjar áherslubreytingar en engar rosalegar eftir að Jón Þór tók við liðinu af Frey Alexanderssyni.

„Það er ekkert breytt rosalega miklu en auðvitað eru áherslurnar aðeins öðruvísi. Það er öðruvísi að fá nýtt þjálfarateymi inn. Við höfum æft vel og það hefur gengið vel með þeim. Þetta hefur bara verið jákvætt,“ sagði fyrirliðinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×