Handbolti

Rafmögnuð spenna fyrir lokaumferðina eftir sigur Noregs gegn Svíþjóð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hart var barist í leiknum í dag.
Hart var barist í leiknum í dag. vísir/epa
Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru öll með sex stig í milliriðli tvö á HM í handbolta eftir að Noregur vann sigur á Svíum í leik liðanna í kvöld, 30-27.

Þjóðirnar mættust í Jyske Bank höllinni í Herning í Danmörku en Svíar gátu með sigri skotið bæði sér og Danmörku í undanúrslitin. Norðmenn voru ekki á sama máli.

Svíar voru með ágætis tök á leiknum framan af en frábær kafli Norðmanna undir lok fyrri hálfleiksins sá til þess að þeir voru þremur mörkum yfir er gengið var til búningsherbergja í hálfleik, 17-14.

Í síðari hálfleik voru Svíarnir mikið að láta reka sig útaf og alltaf voru Norðmennirnir skrefi á undan. Þeir höfðu að lokum betur, 30-27, en Danir, Svíar og Norðmenn eru öll með sex stig. Danir leika síðar í kvöld gegn Egyptum.

í lokaumferðinni spila Norðmenn við Ungverjaland og með sigri verða þeir að treysta á Dani en það er erfiður leikur sem bíður Kristjáns Andréssonar og lærisveina í Svíþjóð. Þeir mæta heimamönnum, Dönum.

Markahæstir í liði Svía voru þeir Hampus Wanne og Andreas Nilsson með fimm mörk hvor en markahæstur Norðmanna var hinn magnaði Sander Sagosen. Hann skoraði sjö mörk úr ellefu skotum.

Ísland á enn möguleika á að ná topp tíu efstu sætunum á HM í handbolta en til þess þarf liðið að sigra Brasilíumenn á miðvikudaginn. Þetta var staðfest eftir tap Brasilíu gegn Spánverjum í kvöld, 36-24.

Markahæstur Spánverja í leiknum var Aitor Arino Bengoechea en Jose Canellas kom næstur með fimm mörk. Hjá Brasilíu voru þeir Haniel Langaro og Raul Nantes markahæstir með fjögur mörk hvor.

Spánverjar eru því með fjögur stig í milliriðli okkar Íslendinga en Brasilía er með tvö stig. spánverjar spila við Þjóðverja á miðvikudaginn og geta með hagstæðum úrslitum komist í undanúrslitin.

Þeir þurfa hins vegar að treysta á Króatar vinni Þjóðverja í kvöld og að Spánn vinni Þýskaland í lokaumferðinni og að Króatar tapi fyrir Frökkum. Það þarf margt og mikið að gerast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×