Fótbolti

Jón Þór: Mikilvægt að byrja landsliðsárið á sigri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Þór ásamt aðstoðarþjálfara sínum Ian Jeffs.
Jón Þór ásamt aðstoðarþjálfara sínum Ian Jeffs. vísir/vilhelm
Jón Þór Hauksson stýrði kvennalandsliði Íslands í fótbolta til sigurs í sínum fyrsta leik er liðið vann 2-0 sigrum á Skotum í æfingaleik á La Manga á Spáni fyrr í dag.

Skotland mun spila á HM í Frakklandi næsta sumar og þar er á ferðinni því afar sterkt lið sem átti þó fá svör við öflugum íslenskum leik. Skagamaðurinn var glaður í leikslok.

„Það er frábært að enda fyrsta leikinn með sigri Það er mikilvægt að byrja landsliðsárið á sigri og það er ekki bara það heldur er ég ánægður með leikinn í heild sinni,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik en Ísland var komið í 2-0 fljótlega í síðari hálfleik með tveimur mörkum frá Valsaranum Elínu Mettu Jensen.

„Varnarleikurinn var öflugur en það var óöryggi á boltanum í fyrri hálfleik. Það var stress og við náðum að róa okkur aðeins í hálfleiknum.“

„Í síðari hálfleik náðum við aðeins að stoppa boltann og líta í kringum okkur. Boltinn gekk betur í síðari hálfleik og við náðum frábærum sóknum. Sóknarleikurinn var öflugur í síðari hálfleik.“

Elín Metta hefur iðulega spilað sem framherji eða kantmaður með landsliðinu en í leiknum gegn Skotum í dag spilaði hún sem fremsti miðjumaður bakvið Berglindu Þorvaldsdóttur sem var framherji.

„Elín Metta átti frábæran leik og kláraði bæði mörkin mjög vel. Hún er öflugt vopn í þessari stöðu. Hún er áræðin á bakvið varnirnar og það voru svæðin sem við vorum að leita í gegn Skotunum. Það gekk mjög vel í seinni hálfleik.“

„Hún og Berglind spiluðu mjög vel saman í seinni hálfleik. Það er ánægjulegt. Þær voru báðar hættulegar og náðu mjög vel saman. Berglind gerði frábærlega í báðum mörkunum.“

Ísland hefur verið við æfingar á La Manga undanfarna viku og segir Jón Þór að þessi ferð sé afar kærkomin fyrir þá leiki sem framundan eru.

„Virkilega flott ferð. Það var kærkomið að fá þetta verkefni við þessar aðstæður. Hópurin hefur staðið sig virkilega vel. Það hefur verið frábær stemning í hópnum og það sýnir sig svo sannarlega í leiknum í dag.“

„Það eru leikmenn sem eru svekktir að koma ekki inn á og sumir sem koma ekki inná en sýna samt frábæran liðsanda og karakter að styðja við bakið á liðinu. Þær hafa staðið sig frábærlega,“ sagði Jón Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×