Bróðir Loujain, Walid Alhathloul, lýsir fangelsisvist systur sinnar í grein sem birt var á vef bandarísku fréttastofunnar CNN í dag. Walid segir að Loujain hafi tjáð foreldrum þeirra, sem heimsóttu hana nýverið í fangelsið, að hún sé reglulega húðstrýkt, lamin og beitt kynferðisofbeldi í kjallara fangelsisins. Þessum kjallara lýsir Loujain sem „hryllingshöll“.
„Þegar Loujain ræddi pyntingarnar við foreldra mína skulfu hendur hennar óstjórnlega. Ég óttast að sársaukinn fylgi henni ævilangt,“ segir Walid í grein sinni.
„Litla systir mín segist reglulega húðstrýkt, lamin, pyntuð með raflosti og áreitt. Hún sagði að stundum vektu grímuklæddir menn hana um miðja nótt með ólýsanlegum hótunum.“
Þá heldur Walid því fram að einn rannsakenda í máli Loujain hafi reynt að þvinga hana til að giftast sér og hótað því að hann myndi nauðga henni. Walid biðlar jafnframt til bandarísku söngkonunnar Mariuh Carey, sem kemur fram á tónleikum í Sádi-Arabíu á fimmtudagskvöld, að vekja athygli á máli systur sinnar.
Táknmynd nýrra tíma
Loujain var ein ellefu baráttukvenna sem handteknar voru í Sádi-Arabíu í maí í fyrra en þær höfðu allar barist fyrir bættum réttindum kvenna í landinu. Eiginmaður Loujain, uppistandarinn Fahad al-Butairi, var einnig handtekinn í fyrra en hjónin voru af mörgum álitin táknmynd nýrra og frjálslegri tíma í Sádi-Arabíu. Vinur hjónanna sagði frá kynnum sínum af þeim, og hvarfi þeirra, í Twitter-færslum sem vöktu mikla athygli í byrjun janúar.A couple years ago, when I was writing for American Dad!, I needed an Arabic speaker for a small part. Our casting director recommended a Saudi comedian, who happened to be in LA for a couple months shooting a tv show. His name is Fahad Albutairi.
— Kirk Rudell (@krudell) January 2, 2019
Þá hafi einn nánasti ráðgjafi Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, verið viðstaddur að minnsta kosti eina yfirheyrslu yfir konunum þar sem pyntingaraðferðum var beitt og hótað einni kvennanna lífláti. Ráðgjafanum, Saud al-Qahtani, hefur jafnframt verið kennt um morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.