Enski boltinn

Klopp um meintan leikaraskap Salah: Þurfum ekki að sjá blóð til að það sé brot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fiskar hér víti á móti Brighton á dögunum.
Mohamed Salah fiskar hér víti á móti Brighton á dögunum. Getty/Andrew Powell
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sá enga ástæðu til að tala við Mohamed Salah um meintar dýfingar hans þrátt fyrir talsverða umfjöllun í enskum fjölmiðlum.

Jürgen Klopp viðurkennir að það hafi ekki verið brotið á Mohamed Salah þegar hann fór í grasið á móti Crystal Palace í síðasta deildarleik en sagði jafnframt að það sé eina atvikið hjá Egyptanum. Í hin skiptin hafi verið réttilega dæmt víti.





„Þetta er fyrsta atvikið þar sem hann fellur án þess að fá víti og þú ert að tala um öll hin atvikin,“ sagði Jürgen Klopp aðspurður á blaðamannafundi fyrir Leicester leikinn í kvöld.

„Það þarf ekkert að ræða hin atvikin því þar voru réttilega dæmd víti,“ sagði Klopp.

„Það er fullt af öðrum atvikum í deildinni sem eru miklu augljósari en enginn er að tala um þau af því að það er ekki City, ekki United, ekki Liverpool og ekki Arsenal eða Chelsea. Allir hinir virðast hafa leyfi til að gera þetta við og við og það er ekkert fjallað um það sem er í fínu lagi,“ sagði Klopp.

„Allar vítaspyrnurnar sem Salah hefur fengið hafa verið víti en fólk talar um þær eins og það hafi hálfgerðar dýfingar. Við þurfum ekki að sjá blóð til að það sé dæmt brot í fótbolta. Ég ætla ekki að ræða þetta meira og hef ekki rætt þetta við hann sjálfan,“ sagði Klopp.

Leikur Liverpool og Leicester fer fram á Anfield í kvöld en þar getur Liverpool liðið náð sjö stiga forystu á Manchester City á toppi deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Klopp og Salah.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×