Skoðun

Áfram veginn

Davíð Þorláksson skrifar
Alþingi ræðir þessa dagana um upptöku veggjalda. Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Árið 1965 var lagt veggjald á Reykjanesbraut eftir að bundið slitlag hafði verið lagt á hana, þótt sú gjaldtaka hafi aðeins varað í nokkur ár.

Hvalfjarðargöng voru opnuð 1998 þar sem veggjald var innheimt með góðum árangri þar til í lok síðasta árs og svo er gjaldtaka hafin í nýjum Vaðlaheiðargöngum. Nútímatækni gerir það að verkum að ekkert starfsfólk þarf í innheimtuna og hún ætti að geta gengið fljótt og vel fyrir vegfarendur.

Það er jákvætt sjónarmið að sá sem notar opinbera þjónustu greiði fyrir hana ef viðkomandi hefur kost á því. Kostir þess eru að það dregur úr að opinber þjónusta sé notuð að óþörfu og minnkar byrðar á skattgreiðendur.

Þegar um veggjöld er að ræða má einnig nýta þau til að stýra umferð. Til dæmis með því að búa til hvata til að nota almenningssamgöngur og draga úr umferð á álagstíma með hærra verði.

En til þess að veggjöld séu sannarlega veggjöld og að þessir kostir nýtist þá verða þau að standa straum af kostnaðinum við lagningu eða viðhald vegarins sem þau eru innheimt á. Ef það er ekki gert þá er bara um hreinan og kláran skatt að ræða.

Ef til stendur að hætta að fjármagna vegagerð að hluta beint úr ríkissjóði og hefja innheimtu veggjalda þá ætti auðvitað að lækka almenna skatta sem því nemur.

Af einhverjum ástæðum hafa stjórnmálamenn þó lítið minnst á það í þessari umræðu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×