Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun bankastjórans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, um 17 prósent í fyrra eða sem nemur 550 þúsund krónum. Hækkuðu mánaðarlaunin úr 3.250.000 krónum í 3.800.000 krónur þann 1. apríl 2018. Hækkunin kom innan við ári frá annarri launahækkun bankastjórans sem fékk hækkun upp á tæpar 1,2 milljónir á mánuði 1. júlí 2017. Þá hafði ákvörðunarvald launa bankastjórans verið fært frá kjararáði til bankaráðs Landsbankans.
Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr 2.089 þúsund krónum í 3.800 þúsund krónur. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82 prósent á þessu tíu mánaða tímabili. Um er að ræða laun og bifreiðahlunnindi.
Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Fréttablaðsins þar sem óskað var eftir sundurliðun á launaupplýsingum bankastjórans eins og þær birtast í nýbirtum ársreikningi bankans.
Þar segir að ákvörðun bankaráðs um laun bankastjóra í fyrra byggi á starfskjarastefnu bankans. Þar segir að starfskjör stjórnenda og annarra starfsmanna bankans eigi að vera samkeppnishæf en ekki leiðandi.
„Kjör bankastjóra Landsbankans voru á sínum tíma felld undir kjararáð og var bankastjóri eini æðsti stjórnandi fjármálafyrirtækis sem féll undir ráðið. Þetta varð m.a. til þess að laun bankastjóra Landsbankans voru mun lægri en laun annarra stjórnenda í fjármálakerfinu. Laun bankastjóra Landsbankans hafa nú verið færð nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja,“ segir í svari bankans við fyrirspurn blaðsins.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið beindi þeim tilmælum til stjórna ríkisfyrirtækja í ársbyrjun 2017 að launahækkunum forstjóra þeirra yrði stillt í hóf þegar kjararáð hætti að ákvarða laun þeirra. Fréttablaðið fjallaði ítarlega um launaþróun ríkisforstjóra í fyrra sem margir fengu verulegar hækkanir sumarið 2017.
Forstjóri Isavia hækkaði um 36 prósent, Íslandspósts um 25 prósent, Landsvirkjunar um 58 prósent og bankastjóri Landsbankans sem fyrr segir. Fregnir af launahækkunum æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja hafa verið sem olía á eldinn hjá verkalýðsforystunni inn í komandi kjarasamninga sem hefur margítrekað gagnrýnt þær.
